Heilbrigðisþjónusta við tímabundna dvöl á Grænlandi

Hafir þú tímabundna dvöl á Grænlandi áttu rétt á nauðsynlegri læknisþjónustu ef þú hefur fasta búsetu innan ríkjasambands Danmerkur, Færeyja og Grænlands eða í landi sem á aðild að Norræna sáttmálanum um almannatryggingar. Það nær til kostnaðar vegna meðferðar og uppihalds á sjúkrahúsi, en ekki til mögulegra sjúkraflutninga heim frá Grænlandi sem geta orðið afar kostnaðarsamir. Grænlenska heilbrigðiskerfið mælir þess vegna með því að fólk fái sér ferðatryggingu fyrir dvöl í landinu.
Ferðatrygging nær yfir öll útgjöld vegna bráðra veikinda eða slyss meðan á tímabundinni dvöl á Grænlandi stendur. Auk sjúkraflutninga heim frá Grænlandi skaltu ganga úr skugga um að ferðatryggingin þín nái einnig yfir sjúkraflutninga frá stöðum þar sem ekki er búseta árið um kring, hyggist þú vera á ferli utan bæja og byggðarlaga.
Dveljir þú tímabundið á Grænlandi vegna vinnu gætir þú átt rétt á heilbrigðisþjónustu gegnum vinnuveitanda þinn. Sum einkafyrirtæki sjúkratryggja starfsfólk sitt.
Fyrir þau sem búsett eru í Danmörku eða Færeyjum
Hafir þú fasta búsetu innan ríkjasambands Danmerkur, Færeyja og Grænlands áttu rétt á heilbrigðisþjónustu meðan á tímabundinni dvöl á Grænlandi stendur. Hafðu meðferðis skjöl því til sönnunar að þú eigir rétt á heilbrigðisþjónustu í Danmörku eða Færeyjum. Að öðrum kosti þarftu sjálf/t/ur að standa straum af öllum kostnaði.
- Komir þú frá Danmörku skaltu hafa gula sjúkratryggingakortið þitt meðferðis til að sýna fram á búsetustað þinn og rétt til heilbrigðisþjónustu í Danmörku.
- Komir þú frá Færeyjum skaltu hafa meðferðis gögn sem sýna fram á þú eigir rétt á heilbrigðisþjónustu á vegum færeysks sjúkrasamlags. Börn undir 16 ára aldri falla undir tryggingar foreldra sinna.
Með heilbrigðisþjónustu er hér átt við meðferð vegna skyndilegra veikinda, bráðrar versnunar langvinns sjúkdóms eða slysa. Eigir þú rétt á slíkri þjónustu færð þú eftirfarandi án endurgjalds:
- Læknishjálp
- Meðferð á sjúkrahúsi
- Lyfseðilsskyld lyf
- Bráðameðferð hjá tannlæknum hins opinbera, aðeins vegna bráðatilvika svo sem í tengslum við tannholdsbólgu, brotna fyllingu, brotna tönn og þess háttar
- Sjúkraflutningar frá þorpi eða öðrum stað með heilsársbúsetu á svæðissjúkrahús eða landspítalann í Nuuk
Eftirfarandi er ekki innifalið í þeirri heilbrigðisþjónustu sem hér er átt við:
- Flutningur án endurgjalds heim til Færeyja eða Danmerkur
- Flutningur án endurgjalds af svæði án heilsársbúsetu á svæðissjúkrahús, landspítala eða til læknismeðferðar utan Grænlands
Fyrir þau sem búsett eru í öðrum norrænum löndum
Komir þú frá Svíþjóð, Finnlandi, Noregi, Íslandi eða Álandseyjum átt þú rétt á nauðsynlegri læknishjálp meðan á tímabundinni dvöl á Grænlandi stendur samkvæmt Norræna sáttmálanum um almannatryggingar. Það er í höndum læknisins sem skoðar viðkomandi sjúkling á Grænlandi að meta hvort þjónustan sé nauðsynleg með tilliti til eðlis veikinda og þess hve langvinnt ástandið er.
Hafðu meðferðis gögn til að sýna fram á rétt þinn til heilbrigðisþjónustu í heimalandinu. Það getur verið sjúkratryggingakort ESB, kort gefið út af tilteknu landi eða annað þvíumlíkt. Án slíkra gagna þarft þú sjálf/t/ur að standa straum af öllum kostnaði.
Sem borgari norræns ríkis átt þú rétt á heilbrigðisþjónustu án endurgjalds, sem felur í sér eftirfarandi:
- Læknishjálp
- Meðferð á sjúkrahúsi
- Lyf sem ávísað er af lækni
- Meðferð hjá tannlæknum hins opinbera vegna bráðatilvika svo sem í tengslum við tannholdsbólgu, brotna fyllingu, brotna tönn og þess háttar
- Sjúkraflutningar frá þorpi eða öðrum stað með heilsársbúsetu á svæðissjúkrahús eða landspítalann í Nuuk
- Niðurgreiðslu aukakostnaðar vegna sjúkraflutninga heim, sé það mat læknis að þú verðir sökum veikinda eða slyss að ferðast heim á dýrari máta en upprunalega stóð til. Það þýðir að þú verður sjálf/t/ur að borga sem nemur kostnaði af venjulegum farmiða til heimalands þíns, en spítalinn eða annað yfirvald greiðir þann aukakostnað sem bætist við.
Sem borgari norræns ríkis átt þú ekki rétt á:
Flutningi frá stöðum þar sem ekki er búseta allt árið á næsta svæðissjúkrahús
Ef þú hefur búsetu í ESB/EES-landi
Meðan þú dvelur tímabundið á Grænlandi átt þú sem borgari ESB/EES-ríkis rétt á nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu. Það er í höndum læknisins sem skoðar þig að meta hvort þjónustan sé nauðsynleg.
Komir þú frá ESB/EES-landi skaltu hafa meðferðis gögn sem sýna að þú eigir rétt á heilbrigðisþjónustu í heimalandinu, til dæmis ESB-sjúkratryggingaskírteini, tryggingakort eða álíka. Hafirðu ekki slík gögn meðferðis þarftu að greiða meðferðina fullu verði.
Eftirfarandi fellur undir þá nauðsynlegu heilbrigðisþjónustu sem þú átt rétt á sem borgari ESB-EES-ríkis:
- Læknishjálp
- Meðferð á sjúkrahúsi
- Lyf sem ávísað er af lækni
- Bráðameðferð hjá tannlæknum hins opinbera vegna bráðatilvika svo sem í tengslum við tannholdsbólgu, brotna fyllingu eða brotna tönn.
- Sjúkraflutningar frá þorpi eða stað með heilsársbúsetu á næsta svæðissjúkrahús eða landspítalann í Nuuk.
Sem borgari ESB/EES-ríkis átt þú ekki rétt á:
- Flutningi án endurgjalds til heimalands þíns
Flutningi án endurgjalds frá stað án heilsársbúsetu á næsta svæðissjúkrahús, landspítalann í Nuuk eða meðferðarstofnanir utan Grænlands
Aðrir heimshlutar
Grænland hefur ekki gert neina alþjóðlega samninga um heilbrigðisþjónustu við aðra heimshluta. Þau sem koma frá landi utan Norðurlanda eða ESB til tímabundinnar dvalar á Grænlandi þurfa því sjálf að bera allan kostnað af meðferðum og flutningi vegna heilbrigðisþjónustu. Því er nauðsynlegt að hafa gilda sjúkratryggingu.
Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.