Heilbrigðiskerfið á Grænlandi

Sundhedsvæsnet i Grønland
Hér er yfirlit yfir þá þjónustu sem grænlenska heilbrigðiskerfið veitir á mismunandi stöðum á Grænlandi.

Langt er milli bæja og byggðarlaga á Grænlandi og einu samgönguleiðirnar eru með flugvélum, þyrlum og bátum. Hyggist þú flytja til jaðarbyggða skaltu fyrst kynna þér þjónustustigið og meta hvort það sé viðunandi með tilliti til líkamlegs ástands þíns. Auk dýrra sjúkraflutninga og mikilla fjarlægða glímir grænlenska heilbrigðiskerfið við erfiðleika við ráðningu starfsfólks, einkum til strjálbýlustu svæðanna.

Heilbrigðisþjónusta á Grænlandi

Allir með fasta búsetu á Grænlandi eiga rétt á tiltekinni heilbrigðisþjónustu án endurgjalds. Sé þjónustan ekki í boði í grenndinni átt þú rétt á að fá ferðakostnað á næsta sjúkrahús greiddan, að því gefnu að meðferðin sé samkvæmt fyrirmælum læknis.

Eftirfarandi fellur undir þá opinberu heilbrigðisþjónustu sem leitast er við að veita öllum án endurgjalds:

 • Þjónusta lækna og sérgreinalækna
 • Innlögn og uppihald á sjúkrahúsum
 • Sérstakt eftirlit á meðgöngu og í fæðingu, auk heilbrigðisþjónustu fyrir nýbakaða foreldra
 • Heima- og hjúkrunarþjónusta
 • Fyrirbyggjandi heilbrigðiseftirlit
 • Bólusetningar samkvæmt bólusetningaráætlun og í sérstökum tilvikum
 • Lyfseðilsskyld lyf
Aðgengi að heilbrigðisþjónustu

Landfræðileg skilyrði á Grænlandi gera íbúum á einangruðum jaðarsvæðum erfitt um vik að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Það er ekki aðeins fyrirhafnarsamt heldur einnig dýrt að ferðast af jaðarsvæði á næstu heilsugæslu, sjúkrahús eða landspítalann í Nuuk. Í sumum tilfellum getur auk þess reynst nauðsynlegt að senda sjúklinga til frekari meðferðar á Íslandi eða í Danmörku.

Allir með fasta búsetu á Grænlandi eiga því rétt á niðurgreiðslu ferðakostnaðar í tengslum við læknismeðferð, veikindi eða aðhlynningu, ef það er samkvæmt fyrirmælum læknis.

Reynt er eftir fremsta megni að tryggja jafnt aðgengi allra að heilbrigðisþjónustu með ýmiss konar heilbrigðisráðgjöf:

 • Búir þú í bæ með færri en 50 íbúa áttu rétt á ráðgjöf án fjarlækningabúnaðar. Slíkri ráðgjöf sinnir heilbrigðisstarfsfólk í 12 til 30 klukkustundir á viku. Að auki eru fámennar byggðir heimsóttar af heilbrigðisstarfsfólki tvisvar til fjórum sinnum á ári.
 • Búir þú í bæ með 50–200 íbúa áttu rétt á ráðgjöf gegnum fjarlækningabúnað, sem er sinnt af heilbrigðisstarfsfólki í 30 til 40 klukkustundir á viku. Fjarlækningabúnaður gerir almenningi kleift að njóta ráðgjafar heilbrigðisstarfsfólks á næsta sjúkrahúsi. Að auki eru bæir með 50-200 íbúa heimsóttir af heilbrigðisstarfsfólki þrisvar til fjórum sinnum á ári.
 • Búir þú í bæ með 200-500 íbúa hefur þú aðgang að heilsugæslustöð þar sem hjúkrunarfræðingar og annað heilbrigðisstarfsfólk starfa. Að auki eru bæir með 200-500 íbúa heimsóttir af heilbrigðisstarfsfólki fjórum til átta sinnum á ári.
 • Búir þú í bæ með 500-1.200 íbúa hefur þú aðgang að lítilli heilsugæslumiðstöð þar sem starfa ýmist fastir læknar eða afleysingalæknar.
 • Búir þú í bæ með yfir 1.200 íbúa hefur þú aðgang að stórri heilsugæslumiðstöð þar sem læknar, sérgreinalæknar og hjúkrunarfræðingar starfa.

Búir þú í þeim bæ sem hefur flesta íbúa á viðkomandi svæði hefur þú aðgang að svæðissjúkrahúsi þar sem starfa læknar, hjúkrunarfræðingar, ljósmæður, sjúkraþjálfarar, meinatæknar og fleiri. Á landspítalanum í Nuuk eru enn fleiri sérfræðisvið og fleiri tegundir þjónustu.
Auk landspítalans í Nuuk eru svæðissjúkrahús í Aasiaat, Ilulissat, Sisimiut og Qaqortoq.

Tannlækningar

Í bæjum með yfir 500 íbúa eru tannlæknastofur á vegum hins opinbera. Tannlæknastofurnar sinna almennu tanneftirliti, holufyllingum, rótfyllingum, tannréttingum og meðferð vegna gervitanna, auk sérfræðitannaðgerða í einhverjum mæli.

Boðið er upp á almennt tanneftirlit og heimsóknir í skóla og aðrar stofnanir þar sem börn, starfsmenn og foreldrar fá leiðbeiningar um tannburstun og tannhirðu.

Allir byggðakjarnar, að þeim allra minnstu undanskildum, fá árlega heimsókn frá tannlækni. Auglýst er fyrirfram hvernig panta á tíma.

Í Nuuk eru einkareknar tannlæknastofur.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna