Réttur til heilbrigðisþjónustu á Grænlandi

Ret til sundhedsydelser i Grønland
Hér er að finna upplýsingar um þá heilbrigðisþjónustu sem þú átt rétt á og hvert skal leita ef upp koma veikindi.

Fólk sem er búsett á Grænlandi á rétt á ókeypis heilbrigðisþjónustu, þar á meðal ávísuðum lyfjum, eins og annars staðar á Norðurlöndum. Greiða þarf fyrir hjálpartæki svo sem gervitennur og gleraugu. Tannlæknaþjónusta er án endurgjalds í einhverjum mæli.

Vegna þeirra áskorana sem blasa við sökum stærðar Grænlands og strjálbýlis er mælt með því að fólk tryggi sig fyrir sjúkraflutningum frá slysstað til næstu byggðar með heilsársbúsetu.

Hverju áttu rétt á ef þú starfar í Grænlandi og veikist?

Fólk sem er búsett á Grænlandi á rétt á þeirri heilbrigðisþjónustu sem borgurum landsins stendur til boða.

Þau sem búa í Danmörku eða í Færeyjum og starfa á Grænlandi eiga rétt á ókeypis heilbrigðisþjónustu við skyndileg veikindi.

Norrænn sáttmáli um almannatryggingar frá 1. maí 2014 gildir um fólk sem er búsett utan ríkjasambandsins en innan Norðurlanda.

Þú átt rétt á meðferð við skyndilegum sjúkdómum og greiðslu á aukakostnaði vegna heimferðar til búsetulands þíns.

Ekki er hægt að fá evrópskt sjúkratryggingakort á Grænlandi.

Hver er réttur þinn ef þú veikist meðan á tímabundinni dvöl á Grænlandi stendur?

Ef þú býrð í Danmörku og starfar eða stundar nám á Grænlandi áttu rétt á ókeypis heilbrigðisþjónustu við skyndileg veikindi. Mundu að hafa gula sjúkratryggingakortið þitt meðferðis til tímabundinnar dvalar á Grænlandi. Ef þú býrð í Færeyjum og starfar eða stundar nám á Grænlandi áttu sömuleiðis rétt á ókeypis heilbrigðisþjónustu. Hafðu meðferðis skjöl því til sönnunar að þú eigir rétt á heilbrigðisþjónustu gegnum færeyskan sjúkratryggingasjóð.

Búir þú utan ríkjasambandsins, en innan Norðurlanda eða ESB/EES, ertu tryggð/t/ur á grundvelli Norræna sáttmálans um almannatryggingar líkt og aðrir Norðurlandabúar. Mundu að hafa meðferðis skjöl því til sönnunar að þú eigir rétt á heilbrigðisþjónustu í þínu búsetulandi. Það getur verið sjúkratryggingakort ESB, kort gefið út af tilteknu landi eða annað þvíumlíkt.

Þetta þýðir að þú átt rétt á meðferð vegna skyndilegra veikinda og niðurgreiðslu aukakostnaðar í tengslum við heimferð til búsetulandsins, en þá verður þú að geta sýnt fram á hvar þú átt fasta búsetu.

Áttu rétt á að njóta fyrirfram ákveðinnar heilbrigðisþjónustu í öðru norrænu ríki?

Grænlenskur borgari á aðeins rétt á fyrirfram ákveðinni meðferð í öðru norrænu landi ef henni er ávísað af lækni. Ef um er að ræða meðferð sem yfirleitt er ekki í boði á Grænlandi má láta á það reyna í rannsóknanefnd heilbrigðisþjónustunnar (d. „sundhedsvæsenets visitationsnævn“).

Hvaða heilbrigðisþjónustu áttu rétt á frá Grænlandi ef þú dvelst tímabundið utan Grænlands?

Dveljir þú tímabundið annars staðar en á Grænlandi áttu ekki rétt á fyrirfram ákveðinni heilbrigðisþjónustu í landinu. Grænlenska heilbrigðiskerfið getur aðeins niðurgreitt heilbrigðisþjónustu á Grænlandi.

Hvað kostar heilbrigðisþjónusta á Grænlandi?

Heilbrigðisþjónusta á Grænlandi er að mestu leyti opinber og án endurgjalds fyrir borgara landsins. Eftir því sem staðbundnar og landfræðilegar aðstæður leyfa átt þú, sem íbúi á Grænlandi, rétt á eftirtalinni þjónustu án endurgjalds:   

  • Heimilislæknar og opinber sjúkrahús
  • Ráðgjafar sveitarfélaganna og heilsugæslustöðvar
  • Tannlæknaþjónusta á vegum hins opinbera
  • Sérgreinalæknar
  • Lyfseðilsskyld lyf
  • Heimaþjónusta

Búir þú á svæði þar sem engin heilbrigðisþjónusta er í boði áttu rétt á flutningi á svæðissjúkrahús eða landspítala. Það er þó aðeins að því gefnu að meðferðinni sé ávísað af lækni.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna