Námskeið í norsku eða öðrum Norðurlandamálum

Réttur og skylda til norskunáms í Noregi
Ríkisborgurum Norðurlandanna og ESB/EES-landanna er hvorki rétt né skylt að sækja norskunámskeið í Noregi. Það þýðir að ef þú ert norrænn ríkisborgari þá áttu ekki rétt á ókeypis norskukennslu. Ef þig langar til að læra norsku þarftu að finna fræðslumiðstöð sem heldur námskeið og þú greiðir fyrir námskeiðið úr eigin vasa. Sameinaðar fjölskyldur norskra eða norrænna ríkisborgara á aldrinum 16-55 ára eiga hins vegar rétt á ókeypis norskukennslu. Þeim er skylt að ljúka náminu ef þær hyggjast sækja um fast dvalarleyfi eða ríkisborgararétt.
Próf í norsku
Áður lauk norskunámi með norskuprófi 2 eða 3. Stafrænt norskupróf er komið í þeirra stað.
Læra norsku í Noregi
Ef þig langar til að læra norsku í Noregi vegna þess að þú ætlar að vinna, stunda nám eða setjast að í landinu, eða einfaldlega vegna þess að þú hefur áhuga á norskunni, þá byrjarðu á því að hafa samband við sveitarfélagið sem þú býrð í eða hyggst flytjast til. Mörg sveitarfélög bjóða upp á norskunámskeið fyrir fullorðna gegn greiðslu. Þú getur einnig keypt þér námskeið hjá einkareknum fræðslumiðstöðvum.
Eins er hægt að læra norsku á netinu. Skoðaðu Norwegian on the Web sem er ókeyptis námskeið í umsjón Norges Teknisk-Naturvitenskapelige Universitet (NTNU). Þú getur líka notað leitarorðin „Norskkurs på nett“ eða bara „Norskkurs“ á netinu en farðu varlega og kynntu þér umsagnir og verð áður en þú stekkur til.
Háskólar bjóða útlensku námsfólki upp á norskunámskeið. Námskeiðin heita „Norsk for utenlandske studenter“ eða eitthvað í þá veruna. Lestu um skólana og athugaðu hvaða kröfur eru gerðar til að geta sótt námskeið þar.
Læra norræn tungumál í Noregi
Ef þú hefur áhuga á að læra annað norrænt tungumál í Noregi hefurðu samband við námsstofnanir sem bjóða upp á tungumálakennslu, lýðháskóla eða einkareknar fræðslumiðstöðvar. Þú getur líka beðið sendiráð lands þíns í Ósló um ábendingar um aðila sem bjóða upp á námskeið.
Ef þú ert með spurningu skaltu fylla út eyðublaðið hérna:
ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.