Öruggar borgir eru byggðar á trausti

Undanfarin ár hafa gildi okkar orðið fyrir ítrekuðum árásum ofbeldisfulls öfgahyggjufólks, bæði á Norðurlöndum og annars staðar í heiminum. Við viljum ekki að borgir okkar og bæir verði fyrir barðinu á ofbeldi og hatri, eða að íbúarnir þurfi að búa við ótta.

Lýðræðið á sér djúpar rætur í norrænu löndunum. Við virðum grundvallarmannréttindi og frelsi einstaklinga Við erum opin, umburðarlynd og berum traust til náungans. Þetta eru gildi sem öll norrænu löndin eiga sameiginleg. Þau eru þess virði að standa vörð um.

Ofbeldisfull öfgahyggja ógnar ekki aðeins lífi og limum fólks, hún hefur einnig áhrif á lýðræðissamfélög okkar og lífshætti. Hún er ógn við undirstöðu þeirra samfélaga sem við höfum unnið svo ötullega að að byggja upp. Hún getur grafið undan því trausti sem við berum hvert til annars og þar með frelsi okkar.

Samfélag sem lokar sig af verður að útilokandi samfélagi þar sem fólk verður tortryggið hvert í annars garð, og þar sem umburðarlyndi gagnvart hugmyndum og sannfæringum annarra fer smám saman minnkandi.

Þegar ráðist var á heimaland mitt með skelfilegum hætti í Ósló og á Útey voru viðbrögð okkar andstæða þess sem hryðjuverkamaðurinn hefði viljað. Við tókumst á við harmleikinn af ábyrgð og umhyggju í stað reiði og hefndarþorsta. Við skildum að hatur getur aðeins af sér meira hatur. Þetta orðaði enginn betur en einn hinna ungu eftirlifenda á Útey, sem skrifaði: „ef einn maður getur komið svo miklu illu til leiðar – hugsið ykkur bara alla ástina sem við getum skapað í sameiningu.“

Ég er sannfærður um að þessi viðbrögð hafa gert Norðmenn sterkari og sameinaðri.

Mannskæðar árásir voru einnig gerðar í Kaupmannahöfn, á Krudttønden á Austurbrú og samkunduhús Gyðinga á Krystalgade. Tveir týndu lífi og sex lögreglumenn slösuðust. Í kjölfarið afréðu norrænu samstarfsráðherrarnir að grípa til aðgerða. Ávöxtur þess er Nordic Safe Cities.

Yfirskrift þessarar færslu, „Öruggar borgir eru byggðar á trausti“, vísar til norrænnar grundvallarsýnar á samfélagsgerðina og sameiginlegra markmiða Norðurlanda um að vinna gegn því gangverki öfgahyggju sem leiddi til árásanna.

Þetta er einnig meginmarkmið samstarfsnetsins Nordic Safe Cities, auk samnefndrar handbókar, en ég hef þann heiður að kynna handbókina í Kaupmannahöfn þann 7. mars.

Með því að leggja áherslu á hið jákvæða, varpa ljósi á lífið, beinir handbókin sjónum að góðum dæmum sem sveitarfélög, yfirvöld, félagasamtök og grenndarsamtök hafa ráðist í. Nú koma saman tólf norrænir borgarstjórar, François Zimeray, sendiherra Frakklands í Danmörku, og Torsten Akmann úr ráðuneyti innanríkis- og íþróttamála í Berlín ásamt 150 öðrum sérfræðingum með það að markmiði að deila reynslu og læra hver af öðrum. Þetta er norrænt samstarf eins og það gerist best.

Norrænu löndin hafa lagt áherslu á það í ýmsu samhengi að standa vörð um samfélög okkar sem opin lýðræðissamfélög, og um hina sterku trú okkar á að allir eigi að hafa möguleika á að leggja sitt til samfélagsins. Það er eina færa leiðin. Við verðum að geta treyst hvert öðru. Traustið er fyrir öllu.

Segja má að traust sé gulli betra fyrir hvert samfélag.

Árið 2014 unnu norrænir fræðimenn í fremstu röð rannsókn á norræna líkaninu. Niðurstöðurnar voru birtar í skýrslunni „The Nordic model – challenged but capable of reform“. Ein af meginniðurstöðum rannsóknarinnar var að íbúar Norðurlanda bera umtalsvert meira traust hver til annars, til kjörinna fulltrúa, ríkisvaldsins og réttarkerfisins en íbúar annarra heimshluta.

Traust er ómissandi þáttur í hverju nútímasamfélagi. Traust lætur okkur treysta hvert öðru. Traust eykur samheldni okkar. Traust leggur grunn að framleiðni og hagvexti. Traust skapar lífsgæði. Segja má að traust sé gulli betra fyrir hvert samfélag.

Þegar við skreytum okkur hugtökum á borð við frelsi, traust og samheldni verðum við líka að átta okkur á því að þessi gildi eiga aðeins við svo lengi sem við búum í öruggum samfélögum þar sem við óttumst ekki samborgara okkar.

Starf sem miðar að því að fyrirbyggja að fólk fremji ofbeldisverk hlýtur að stefna að samfélagi án aðgreiningar þar sem mannréttindi eru virt.

Því fagna ég því að einmitt þessi gildi liggi til grundvallar Nordic Safe Cities. Það sem greinir okkur frá öfgasinnum eru grundvallargildi okkar. Ég er sannfærður um að eina árangursríka leiðin til að takast á við hatur er að halda fast í hinar lýðræðislegu hefðir okkar.

Contact information