BLOGGSÍÐA FRAMKVÆMDASTJÓRANS: Hvað færðu fyrir andvirði eins brauðhleifs?

28.02.19 | Fréttir
Nordiska flaggor
Ljósmyndari
Magnus Fröderberg/Norden.org
Kostnaðurinn við norrænt samstarf er einungis um 700 krónur á íbúa á ári. Erfitt er að áætla hversu miklu sú upphæð skilar fyrir íbúana því áhrif samstarfsins eru ómetanleg. Þetta skrifar Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, í nýrri bloggfærslu.

Af og til er ég spurður að því hvað við græðum eiginlega á norrænu samstarfi. Það kostar jú hvern og einn íbúa á Norðurlöndum um það bil 700 krónur á ári – sem samsvarar einum brauðhleifi. Hvað fáum við fyrir peninginn? Svar mitt er á þann veg að norrænt samstarf skapar mikilvæg verðmæti fyrir fólk og fyrirtæki sem og samfélagið í heild sinni og verðmætin eru töluvert meiri en jafngildi 700 króna.

Norrænt samstarf bætir heilsu og bjargar lífum. Skráargatið auðveldar neytendum að velja hollari mat sem inniheldur minna af sykri og salti og meira af heilkorni, trefjum og ýmist hollari eða minni fitu. Þegar þú velur vörur merktar með Skráargatinu, eykur þú líkur þínar á góðri heilsu. Í gegnum ígræðslusamtökin Scandiatransplant, sem fagna 50 ára afmæli nú í ár, fara fram líffæragjafir milli norrænu landanna og nú hefur Eistland bæst í hóp samstarfslandanna. Frá því að samtökin voru stofnuð hafa þau nokkrum sinnum hlotið styrk frá Norrænu ráðherranefndinni og hún tekur auk þess nú þátt í að halda upp á 50 ára afmælið.

Raunar er það svo að Norðurlandabúar nýta sér hreyfanleika þvert á landamæri í meira mæli en íbúar ESB. Frá því á sjötta áratugnum, þegar ríkisstjórnir Norðurlandanna ákváðu að koma á sameiginlegum vinnumarkaði og vegabréfafrelsi, hafa milljónir Norðurlandabúa flust til annars Norðurlands til að starfa þar eða stunda nám. Þessi frjálsa för fólks varð ekki til úr engu.

Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar

Raunar er það svo að Norðurlandabúar nýta sér hreyfanleika þvert á landamæri í meira mæli en íbúar ESB. Frá því á sjötta áratugnum, þegar ríkisstjórnir Norðurlandanna ákváðu að koma á sameiginlegum vinnumarkaði og vegabréfafrelsi, hafa milljónir Norðurlandabúa flust til annars Norðurlands til að starfa þar eða stunda nám. Þessi frjálsa för fólks varð ekki til úr engu. Hún er meðal annars tilkomin vegna sérstakra norrænna samninga, til dæmis samnings um aðgang að æðri menntun, sem eykur möguleika nemenda á að stunda nám og taka próf við menntastofnanir á Norðurlöndum. En það er fleira en samningar í norrænu samstarfi sem stuðlar að auknum hreyfanleika. Við eigum í nánu samstarfi um svokölluð rafræn skilríki, sem munu í framtíðinni auðvelda fólki og fyrirtækjum að nota skilríki frá sínu landi þvert á landamærin. Norrænt samstarf stuðlar einnig að hreyfanleika með fjölda mannaskiptaáætlana, en sumar þeirra ná einnig til Eystrasaltsríkjanna. Þúsundir einstaklinga nýta sér slíkar áætlanir á ári hverju.

Á sviði umhverfismála stuðlar samstarfið á ýmsan hátt að sköpun umhverfisvænni og sjálfbærri samfélaga. Norðurlönd eiga til dæmis í nánu samstarfi um að uppfylla Parísarsamkomulagið, samning um líffræðilega fjölbreytni, samning um loftmengun, tilskipun ESB um efni og efnasambönd, sem og aðrar tilskipanir á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Ég er sannfærður um að hefði norræns samstarfs ekki notið við væri heimurinn aðeins skemmra á veg kominn í lausn loftslagsvandans. En norrænt samstarf snýst ekki einungis um alþjóðlega samninga; það er einnig til staðar þegar þú ferð út í búð að versla. Opinbert umhverfismerki Norðurlanda, Svanurinn, varð til árið 1989 því Norræna ráðherranefndin vildi auðvelda neytendum að velja umhverfisvænar vörur. Fyrst voru það pappír og rafhlöður en í dag má sjá Svaninn á meira en tíu þúsund vörum og seldri þjónustu. Einnig mætti nefna orkusamstarf Norðurlanda sem sér löndunum fyrir stöðugum, öruggum og samkeppnishæfum orkuforða og auðveldar þeim að skipta yfir í grænni orku. Það má því finna norrænan vinkil á það þegar þú kveikir ljósin eða á kaffivélinni. En skýrasta dæmið um hvernig norrænt samstarf stuðlar að sjálfbærni til lengri tíma er líklega Nordgen (Norræn miðstöð um erfðaauðlindir), sem er kannski þekktust fyrir að stýra alþjóðlega fræbankanum á Svalbarða, sem mætti kalla „varabúnað“ mannkynsins, ef allt skyldi fara á versta veg.

Norrænt samstarf skilar einnig peningum í ríkissjóði landanna. Fyrir tíu árum síðan undirrituðu norrænu fjármálaráðherrarnir samning um upplýsingaskipti við um 40 lönd sem áður gegndu hlutverki skattaskjóla, það er að segja svæða sem fólk millifærði fé á til þess að komast hjá sköttum í heimaríkinu. Sænsk skattayfirvöld áætla að þetta hafi skilað 1,7 milljörðum sænskra króna í skatttekjum í Svíþjóð einni. Norsk yfirvöld hafa áætlað svipaða upphæð þar í landi.

Samstarfið skapar einnig verðmæti fyrir atvinnulífið. Ég skal gefa dæmi. Til að styðja við nýstofnuð norræn fyrirtæki og auka möguleika þeirra á útflutningi og að laða að sér starfsfólk og fjármagn voru settar á laggirnar samnorrænar nýsköpunarmiðstöðvar víða um heim undir heitinu Nordic Innovation House. Sú fyrsta opnaði í Kísildalnum árið 2015. Verkefnið hefur gengið svo vel að það er í dag fjármagnað án norrænna styrkja. Frá árinu 2015 hafa einnig verið opnaðar nýsköpunarmiðstöðvar í New York, Singapúr og nú síðast Hong Kong, en sú síðastnefnda opnaði í nóvember 2018.

Samstarfið skapar einnig meðvitund um Norðurlönd á annan hátt, sem gagnast getur löndunum. Norðurlönd eru sterkt vörumerki og það er sífellt oftar notað til samnorrænnar kynningar og markaðssetningar. Nordic Matters er til dæmis líklega stærsta alþjóðlega sýningin sem haldin hefur verið um norræna menningu og hugmyndir. Sýningin stóð í Southbank Centre í London allt árið 2017 og fjölmargir þeirra þriggja milljóna sem heimsóttu staðinn fengu að kynnast menningu, gildum og samfélagslíkani Norðurlanda.

Norrænt samstarf stuðlar að góðu samfélagi fyrir allt það fólk sem hér býr. Í gegnum NORDBUK vinnum við til dæmis að því að virkja börn og ungmenni í áhættuhópum til þátttöku.

Þetta eru aðeins nokkur dæmi um hvernig norrænt samstarf skapar verðmæti og skilar mikilvægum árangri. Samstarfið snýst ekki bara um að skila okkur peningum í vasann – þótt það geri það sannarlega líka – heldur snýst þetta um að auðga bæði líf einstaklinga og samfélagið í heild. Þessi verðmæti verða ekki talin í krónum eða evrum en þau eru að minnsta kosti meiri en andvirði eins brauðhleifs. Við værum öll fátækari á margvíslegri hátt ef ekki væri fyrir norrænt samstarf.

Tengiliður