Yfirlýsing norrænu forsætisráðherranna vegna stjórnsýsluhindrana á Norðurlöndum

01.01.70 | Yfirlýsing
Yfirlýsingin var kynnt á þingi Norðurlandaráðs þann 28. október 2015.

Upplýsingar

Adopted
01.01.1970

 

Við viljum afnema stjórnsýsluhindranir sem hamla hagvexti á Norðurlöndum.

Því miður eru dæmi þess að mismunandi reglur eða mismunandi kröfur, sem gerðar eru til framleiðslu, komi í veg fyrir að norræn fyrirtæki stundi starfsemi sína í öðrum norrænum löndum og nýti þannig hinn stóra norræna markað með 26 milljónum neytenda. Þetta er gremjulegt. Það hamlar hagvexti og atvinnusköpun á Norðurlöndum og gerir það vandasamara að laða fjárfestingar til landanna.

Við fögnum því starfi sem Stjórnsýsluhindranaráð hefur unnið að því að fyrirbyggja og afnema stjórnsýsluhindranir, og lítum enn svo á að Stjórnsýsluhindranaráðið gegni lykilhlutverki fyrir hönd norrænu ríkisstjórnanna á þessu sviði.

Jafnframt gerum við okkur grein fyrir því að samtök atvinnulífsins og aðilar vinnumarkaðarins fylgjast náið með þróun mála og vita hvar þær stjórnsýsluhindranir liggja sem einkum standa í vegi fyrir hagvexti. Því hyggjumst við nú stuðla að því, gegnum Stjórnsýsluhindranaráðið, að auka samráð við þessa aðila svo að þeir geti tekið virkari þátt í norrænu samstarfi um afnám stjórnsýsluhindrana. Þá geta þeir lagt sitt af mörkum til að leita lausna á stjórnsýsluhindrunum sem enn eru til staðar milli Norðurlandanna. Þetta myndi gagnast öllum fyrirtækjum og borgurum á Norðurlöndum.

Við felum framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar því að tryggja að markvissar umræður eigi sér stað, þar sem fulltrúar samtaka í atvinnulífinu og aðila vinnumarkaðarins fundi með Stjórnsýsluhindranaráði og norrænum ráðherrum í viðeigandi málaflokkum og leiti í sameiningu lausna á vandanum.