Elin á Rógvi og Marjun Reginsdóttir (myndskr.)

Elin á Rógvi
Elin á Rógvi og Marjun Reginsdóttir (myndskr.): Og mamma! Skáldsaga, Bókadeildin, 2014

Og mamma! er skáldsaga í sjö köflum fyrir lesendur og áheyrendur frá 3ja ára aldri. Höfundurinn Elin á Rógvi, f. 1976, hefur starfað við gerð barnaefnis í færeysku útvarpi og árið 2007 gaf hún út sakamálasögu ætlaða börnum. Og mamma! gerist á gamlárskvöld, nýársdag og 2. janúar og segir sögu afa nokkurs, en aðrar persónur eru amman og gestkomandi barnabörnin Viggo sem er 4 ára og Pauli, lítið eitt eldri.

Ósýnilegi vinurinn er vel þekkt stef úr mörgum barnabókum og birtist hér í hana, klæddum rauðum smekkbuxum, sem skýtur upp kollinum í reglusömu lífi afans. Fyrst sést hann snemma á gamlárskvöldi sem rauður blettur úti á túni þegar afinn lítur út um gluggann. Þegar enginn annar í fjölskyldunni kemur auga á hanann ákveður afinn að gleyma honum. En haninn hverfur ekki svo glatt. Á nýársmorgun er hann kominn inn í húsið og áður en afinn veit af stendur haninn uppi á borði, drekkur úr kaffibollanum hans og nartar í brauðið meðan hann kynnir sig og segist nýfluttur að heiman. Fyrr en varir hefur hann byggt sér hús á miðri grasflötinni og tekur að gala. Afinn flýtir sér að reyna að þagga niður í honum svo amman vakni ekki. Þeir fara að spjalla og haninn segir afa að þetta sé gaggalagú-dagurinn hans, sem þýðir að hann hefur fundið gaggalagúið sitt og á því að fara í heimsókn til móður sinnar. Þessu lyktar þannig að afinn fellst á að gæta eggjanna sem haninn hafði lofað systur sinni að líta eftir. Hann fer með eggin inn í hús og gætir þeirra yfir nóttina. Morguninn eftir er amma að sjóða egg og afi er í öngum sínum, þangað til hann kemur auga á rauða tölustafi á eggjunum í pottinum. Hann setur egg hanans í vasann og fer út í garð. Eitt eggjanna klekst út í vasanum, fyrsti unginn lítur dagsins ljós og fyrr en varir hafa þeir allir brotist út úr skurninni.

Við heyrum um upplifanir afans, hvernig hann segir öðrum frá þeim og hvernig aðrir bregðast við. Til dæmis spyr amman hvað þetta sé sem hann hafi sett út á grasflötina – kannski hænsnakofi? – og þegar hann svarar, með orðum hanans, að þetta sé hanakofi, „... kofi fyrir einhleypan, piparkarlshöll, piparsveinsíbúð“, þá biður amma hann um að hætta þessu rugli. Pauli finnst afinn vera farinn að hljóma eins og litli bróðir. Nágranni þeirra, læknirinn Hilmar, heyrir hænuunga tísta í vasa afans og telur það vera farsímahringingu, því hvað ætti það annað að vera? Viggo dregur frásögn afa síns ekki í efa, en vill þó mun fremur segja frá sínum eigin ævintýralegu upplifunum og hugmyndum en að hlusta á afa sinn. Þannig tala persónurnar hver úr sínu horni. Þegar nær dregur sögulokum virðist skynjun persóna á raunveruleikanum þó vera orðin samræmdari en í byrjun; nú sér amma stóra, fallega hanann og leggur blessun sína yfir að hann verði um kyrrt. Þá hefur haninn þegar lofað afa að hann muni ganga um nakinn, m.ö.o. ekki í smekkbuxum, og ekki gera annað en að gagga þegar amma er nærri. En haninn, sem er haldinn þeirri áráttu að enda allar setningar á orðunum „og mamma“, er mesti kjaftaskur og lætur sér í léttu rúmi liggja hvort amman er nærri eða ekki. Viggo er jafn málglaður og haninn og hefur líka sína kæki eins og að segja „og veistu hvað?“ í hverri setningu. Hann kjaftar því í ömmu sína að haninn kunni að tala en afi hafi beðið hann um að gagga bara þegar hún sé nærri. Þannig getur hin margradda frásögn, þar sem rödd hverrar persónu fær að heyrast án þess að nokkur ein yfirgnæfi hina, haldið áfram. Þá hefur lesandinn líka mun meira að skemmta sér yfir og velta fyrir sér en ef aðeins ein rödd hefði verið ráðandi.