Eva Lindström

Eva Lindström
Ljósmyndari
Jonas Adner
Eva Lindström: Olli och Mo (Olli og Mo) Alfabeta Bokförlag 2012

Myndabók Evu Lindström, Olli och Mo (2012), fjallar um ferðalag. Tveir einstaklingar, titilpersónurnar Olli og Mo, fara í útilegu en þrátt fyrir að þeir séu með kortabók og kíki villast þeir. Hvar eru þeir staddir? Þessi spurning verður nánast heimspekileg.

Á ferð sinni koma þeir við til að fá sér að borða en þurfa að vinna fyrir reikningnum með uppvaski því Mo hefur gleymt veskinu sínu. Þegar þeir eru búnir er orðið dimmt úti og kortabókin kemur ekki að miklu gagni. Á myndopnu þar sem ekkert sést nema skógur bergmála orðin eyðilega: „Hvar erum við?“ „Hérna einhverstaðar.“ „En hvar erum við núna?“ „Kannski hérna.“ Þetta er samtal sem gæti allt eins fjallað um mannlega tilveru.

Myndir Evu Lindström í grábláum litatónum eru tvíræðar og gagnsæir og ríkulegir þekjulitirnir skapa upplifun af landslagi undir vatni. Þegar Olli og Mo villast hvað mest leysast sjónarhornin í myndunum algerlega upp. Blöð, blóm og fræbelgir teygja sig inn yfir síðurnar úr öllum áttum og ógerningur er að átta sig á hvað snýr upp og hvað niður. Sá ruglingur gildir bæði hvað varðar myndskreytingarnar og sjálfa frásögnina. En að lokum enda Olli og Mo hjá Maud, þar sem þeir gista. Og daginn eftir virðist Mo hafa náð áttum í lífi þeirra aftur. Þeir leggja af stað frá Maud í von um að finna kannski leiðina heim að lokum.

Hægt er að túlka söguna um Olli og Mo á marga vegu. Það má líta á hana sem hugleiðingu um krókaleiðir lífsins eða frásögn sem lýsir leitinni að tilgangi lífsins eða eitthvað allt annað. Sögur Evu Lindström eru oft margræðar og full merking þeirra verður ekki ljós fyrr en eftir nokkuð langa samveru.

Eva Lindström er fædd 1952 og býr í Stokkhólmi. Hún hóf feril sinn sem myndasögu- og skopmyndateiknari. Hún hefur myndskreytt verk margra annarra höfunda en er þekktust fyrir myndabækur sínar. Myndabækur hennar eru oft fyndnar og sniðugar en takast um leið á við tilvistarlegar spurningar. Flestar hafa þær verið gefnar út af bókaútgáfunni Alfabeta. Eva Lindström hefur hlotið fjölmörg verðlaun og viðurkenningar, til dæmis Elsa Beskow-veggskjöldinn, Heffaklump-verðlaun dagblaðsins Expressen og húmorverðlaun bókaútgáfunnar „En bok för alla“. Árið 2011 varð hún fyrsti handhafi myndabókaverðlaunanna Snöbollen fyrir bókina Apan och jag (Apinn og ég) og árið 2013 hlaut hún August-verðlaunin fyrir myndskreytingu bókarinnar Snöret, fågeln och jag (Snærið, fuglinn og ég) eftir að hafa verið tilnefnd átta sinnum. Hún er eini sænski höfundurinn sem er tilnefndur til alþjóðlegu H. C. Andersen-verðlaunanna 2014. Eva Lindström er einn þeirra listamanna og myndskreyta sem hafa haft áhrif á nýja kynslóð myndabókahöfunda sem nú er að hasla sér völl í Svíþjóð.