Fríða Ísberg

Fríða Ísberg
Photographer
Gassi
Fríða Ísberg: Kláði. Smásagnasafn, Partus forlag, 2018. Tilnefnt til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2020.

Rökstuðningur:

Klæjar okkur öll meira og minna undan nútímanum?

Sagnasafnið Kláði eftir Fríðu Ísberg (Kløe í danskri þýðingu Kim Lembek hjá útgáfunni Torgard) er fallegt dæmi um þá vorvinda sem borist geta með ungum höfundum inn í bókmenntirnar. Sögumaður horfir með nýjum augum á gömul viðfangsefni sem í frásögnunum verða á margan hátt önnur en þau voru. Endurnýjanir og breytingar eru meðal helstu lífsskilyrða bókmenntanna og stundum gerast þær með því móti að inn á sviðið stígur nýtt fólk sem lítur viðfangsefnin öðrum augum en við eigum að venjast. Frásagnarhátturinn er bæði raunsæilegur og módernískur.  Gildi bókarinnar liggur framar öðru í sterkri, tilfinningalegri nálgun sem krefur lesandann svara um viðhorf og gildi í nútímanum.

Sögurnar í Kláða fjalla í stórum dráttum um það hvernig í ósköpunum er hægt að vaxa úr grasi og taka því hlutskipti sem bíður nútímamanns. Það er skrifað um kynlíf og parasambönd; átök kynslóða og kynja; klám og firringu; böl staðalímynda og fíknar; sekt og kúgun; hefðir með tómahljóði; harðsótta, tímafreka ást; og þrautseiga, kæfandi sorg.

Fríða Ísberg er einhver eftirtektarverðasti rithöfundur nýrrar kynslóðar.  Hún hefur gefið út ljóðabækurnar Slitförin (2017) og Leðurjakkaveður (2019). Hún var tilnefnd til Fjöruverðlaunanna fyrir sagnasafnið Kláða.