Geir Gulliksen og Anna Fiske (myndskr.)

Geir Gulliksen
Photographer
Siren Lauvdal
Geir Gulliksen og Anna Fiske (myndskr.): Joel og Io. En kjærlighetshistorie. Skáldsaga, Aschehoug, 2014

Joel er í fyrsta bekk og ástfanginn í fyrsta sinn. Það gerist á þriðjudegi og kemur Joel sjálfum að óvörum. Allt í einu kemur hann auga á stelpu sem heitir Io. Það má ráða af textanum að Io sér líka eitthvað við Joel, en hún er ári eldri en hann og leyfist því hvorki að leika við hann né bera til hans tilfinningar. Eftir nánari umhugsun ákveður hún samt að leika sér dálítið við hann. Og kannski þau geti þá líka verið ástfangin í þykjustunni.

Þessi litla, ljóðræna ástarsaga er sögð frá sjónarhorni barnsins. Málfarið er athugult, setningar knappar og markvissar og myndmálið frumlegt. Samtölin hitta í mark og eru hnyttin á hæglátan hátt. Sagan er kannski ekki viðburðarík en engu að síður spennandi frásögn um ást og vináttu. Ástarsagan hlýtur ekki hamingjusaman endi, en sögulokin eru engu að síður uppörvandi á opinn og tvíræðan hátt. Þetta er saga um það að vera hrifinn af einhverjum, um óskrifaðar reglur og spennuna og ljóðrænuna sem fylgir því að brjóta þær. Ekki síst fjallar hún um hvernig það er að vera einn og næsta ósýnilegur, en taka svo eftir einhverjum og skynja að hann tekur eftir manni á móti.

Teikningar Önnu Fiske eru einnig ljóðrænar. Feimni, íhygli og líkamleg snerting komast vel til skila í sérstökum og fjörugum stíl. Á stöku stað er textinn brotinn upp með teiknimyndasögum, sem gefa færi á að staldra lengur við hvert augnablik og gera tilraunir með framvinduna. Þetta eykur á frumleika í frásagnarhættinum.

Lesandinn upplifir sterka nærveru í texta og myndum. Fullorðnir munu einnig hitta sjálfa sig fyrir í ýmsum af þeim kringumstæðum sem lýst er. Joel og Io. En kjærlighetshistorie er ætluð yngri lesendum; útgefandi mælir með henni fyrir sex til níu ára. Hún getur þó höfðað til breiðari aldurshóps.

Geir Gulliksen er rithöfundur og ritstjóri. Hann hóf höfundarferil sinn 1986 og hefur skrifað ljóð, esseyjur, skáldsögur og barnabækur. Árið 2008 hlaut hann verðlaun úr sjóði Mads Wiel Nygaard fyrir höfundarverk sitt. Þá var hann tilnefndur til Ibsen-verðlaunanna árið 2013 fyrir fyrsta leikverk sitt.

Anna Fiske er verðlaunaður myndskreytir, myndabókahöfundur og myndasöguteiknari. Hún er fædd í Svíþjóð en hefur verið búsett í Noregi síðan 1994. Fiske hefur gefið út fjölda myndabóka með eigin texta en hefur einnig myndskreytt, meðal annars fyrir aðra rithöfunda. Árið 2014 hlaut hún myndskreytingarverðlaun norska menningarmálaráðuneytisins fyrir framlag sitt til myndskreyttra barna- og unglingabókmennta.