Gentlemen – Svíþjóð

Gentlemen er nomineret til Nordisk Råds filmpris 2015

Ágrip

Klas Östergren er ungur rithöfundur á skjön við umheiminn. Úr öruggu skjóli íbúðar sinnar í Stokkhólmi segir hann sögu fyrrum sambýlinga sinna, sem hann hefur nú fjarlægst. Einn þeirra er hóglífismaðurinn Henry Morgan, hnefaleikakappi og snillingur í djasspíanóleik sem á sér leyndarmál: hann er þjakaður af ástarþrá eftir dularfullri ástkonu sinni. Ekki má gleyma Leo, bróður Henrys, sem er pólitískur æsingamaður, skáld, drykkjurútur. Leo er ekki fyrr stiginn fram á sjónarsviðið en hann kemur hinum í vandræði, sem stafa af vopnasölubraski hans við glæpagengi.

Rökstuðningur dómnefndar

Gentlemen er kræklótt frásögn þar sem tími og persónur eru jafn fljótandi og mörkin milli draums og ímyndunar. Ólíkum frásagnarmátum er fléttað haganlega saman og útkoman er einstaklega persónulegt, glettið og sjálfsrýnið verk.

Leikstjóri – Mikael Marcimain

Mikael Marcimain (1970) hóf feril sinn sem aðstoðarleikstjóri hjá SVT og skapaði sér brátt nafn með sjónvarpsþáttaröðunum The Laser Man (2005) og How Soon Is Now/Upp till kamp, sem hlaut Prix Italia-verðlaunin árið 2008. Frumraun hans í fullri lengd, Call Girl, hlaut FIPRESCI Discovery Award á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto árið 2012. Önnur kvikmynd hans í fullri lengd, Gentlemen, sem byggð er á metsöluskáldsögu eftir Klas Östergren, hlaut Guldbagge-kvikmyndaverðlaun í þremur flokkum.

Marcimain er einnig meðal helstu auglýsingaleikstjóra á Norðurlöndum. Hann hefur leikstýrt alþjóðlegum herferðum fyrir fyrirtæki á borð við Ericsson, IKEA og Danske Bank.

Handritshöfundur – Klas Östergren

Klas Östergren er höfundur fjölmargra skáldsagna, þ.á.m. tímamótaverksins Gentlemen og framhalds hennar, Gangsters. Östergren hefur verið í fremstu fylkingu sænsku bókmenntasenunnar í hartnær þrjá áratugi og hlotið bæði Piratenpriset og Doblougska-verðlaunin, sem veitt eru af Sænsku akademíunni. Ennfremur er hann stofnandi rokksveitarinnar Fullersta Revolutionary Orchestra og hefur starfað sem þýðandi, leikskáld og handritshöfundur kvikmynda og sjónvarpsþátta. Ásamt Lisu Ohlin skrifaði hann handrit að kvikmynd hennar Veranda för en tenor og að kvikmynd Mikaels Håfström, Ondskan, sem var tilnefnd til Óskarsverðlauna í flokki erlendra mynda.

Framleiðandi – Fredrik Heinig

Fredrik Heinig (1970) hefur 15 ára reynslu af framleiðslu auglýsinga, kvikmynda og sjónvarpsþátta. Hann er stofnandi fyrirtækisins B-Reel, sem var útnefnt besta framleiðslufyrirtæki heims árið 2011 af tímaritinu AD Age. 
Í samstarfi við Johan Kling hefur hann m.a. framleitt þáttaröðina Stockholmare og kvikmyndina Darling, sem hlaut kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2007. Heimildarmyndin Palme eftir Kristinu Lindström og Maud Nycander varð tekjuhæsta sænska heimildarmyndin í sænskum kvikmyndahúsum í meira en 30 ár þegar hún var sýnd 2012.

Kvikmyndin Gentlemen, sem leikstýrt er af Mikael Marcimain, var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto árið 2014. Meðal næstu verkefna Heinigs má nefna Den allvarsamma leken eftir Pernillu August, sem verður frumsýnd haustið 2016.

Framleiðandi – Mattias Nohrborg

Mattias Nohrborg (1959) er meðal helstu nafna í sænskri kvikmyndagerð, en fyrirtæki hans Triangelfilm og síðar Triart hefur framleitt og séð um dreifingu á ýmsum listrænum myndum í meira en þrjá áratugi 
Hann hefur starfað fyrir B-Reel frá árinu 2009 og m.a. framleitt heimildarmyndirnar PalmeFoodies og Fanny, Alexander & jag og kvikmyndina Gentlemen. Meðal næstu verkefna hans má nefna heimildarmynd Kristians Petri, Hotellet, og Bergman eftir Jane Magnusson.

Framleiðandi – Johannes Åhlund

Johannes Åhlund er meðstofnandi B-Reel og rekstrarstjóri fyrirtækisins í Evrópu.

Åhlund nam stjórnmálafræði við Stokkhólmsháskóla áður en hann hóf feril sinn í sjónvarpi, fyrst sem fréttamaður og fréttastjóri og síðar sem framleiðandi. Á árunum 1998 til 2005 framleiddi hann um 40 sjónvarpsmyndir og -þáttaraðir, svo sem stuttseríuna Spacer eftir Johan Kling árið 2002. Hann framleiddi einnig spennumyndina Ond tro eftir Kristian Petri, sem var frumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto 2009. Hann var meðframleiðandi norsku kvikmyndarinnar Kongen av Bastøy (2010) og nú síðast Gentlemen eftir Mikael Marcimain (2014).

Framleiðsluupplýsingar

Titill á frummáli: Gentlemen

Leikstjóri: Mikael Marcimain

Handritshöfundur: Klas Östergren

Framleiðendur: Fredrik Heinig, Mattias Nohrborg, Johannes Åhlund

Framleiðslufyrirtæki: B-Reel 

Aðalleikarar: David Dencik, Ruth Vega Fernandez, Sverrir Guðnason

Fulltrúar dómnefndar

Jannike Åhlund, Jon Asp, Kristina Börjeson