Góðhjartaði drápsmaðurinn – Finnland

Billede fra "Euthanizer" (Finland) - Hannamaija Nikander
Photographer
Janina Witkovski
Finnska kvikmyndin „Góðhjartaði drápsmaðurinn“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2018.

Veijo Haukka er fimmtugur bifvélavirki sem hefur aukatekjur af því að svæfa gömul og veik gæludýr. Smærri dýr kæfir hann með bílaútblæstri og þau stærri skýtur hann með skammbyssunni sinni. Þrátt fyrir þennan nöturlega starfa er Veijo sannur dýravinur. Markmið hans er að líkna dýrum og forða þeim frá þjáningu. Hann er þó ekki eins miskunnsamur í garð gæludýraeigenda og refsar þeim hiklaust sem hafa farið illa með dýrin sín sökum heimsku eða sjálfselsku.

Rökstuðningur dómnefndar

Góðhjartaði drápsmaðurinn er svört kómedía sem ögrar væntingum og siðferðiskennd áhorfandans svo um munar. Myndataka og tökustaðir endurspegla vel hinn ljótfagra anda myndarinnar og Matti Onnismaa skilar trúverðugri frammistöðu sem minnir á Buster Keaton.

Handritshöfundur / leikstjóri / framleiðandi – Teemu Nikki

Teemu Nikki (f. 1975) er sonur svínabónda í Sysmä í Finnlandi og sjálflærður handritshöfundur og leikstjóri. Hann er einn eigenda finnska framleiðslufyrirtækisins It‘s Alive Films.

Nikki hefur leikstýrt tugum stuttmynda, kvikmynda og þáttaraða og hundruðum auglýsinga og tónlistarmyndbanda. Frá árinu 2001 hefur hann átt gjöfult listrænt samstarf við framleiðandann Jani Pösö, sem hann kynntist gegnum auglýsingavinnu. Saman skrifuðu þeir og framleiddu fyrstu stuttmynd Nikki, Kaveri, (A Mate, 2007), og fyrstu mynd hans í fullri lengd, 3 Simoa (Simo Times Three, 2012).

Góðhjartaði drápsmaðurinn er þriðja mynd Teemu Nikki í fullri lengd. Hún var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Toronto árið 2017 og var í kjölfarið valin til sýningar á fjölda hátíða. Myndin hlaut verðlaun fyrir besta handrit á kvikmyndahátíðinni í Tókíó og hin finnsku Jussi-verðlaun árið 2018 fyrir besta handrit og bestu tónlist.

Af samstarfsverkefnum þeirra Nikki og Pösö hefur vefvarpsþáttaröðin #lovemilla notið mestrar velgengni, en horft var á þáttaröðina yfir 14 milljón sinnum í Finnlandi. Lovemilla, kvikmynd byggð á þáttaröðinni, vann til Jussi-verðlauna fyrir bestu förðun árið 2016. Þá var ungmennaþáttaröðin Sekasin (Mental), sem Nikki og Pösö skrifuðu í sameiningu og framleiddu fyrir Yle Areena í Finnlandi, tilnefnd til Prix Europa árið 2016 og vann til gullverðlauna á finnsku Venla-hátíðinni sem besta barna- og ungmennaþáttaröðin. Önnur sería verður frumsýnd í Finnlandi í október 2018.

Teemu Nikki kom einnig að leikstjórn fantasíuþáttaraðarinnar Nymfit (Nymphs) fyrir Fisher King/MTV3.

Næsta leikstjórnarverkefni hans í fullri lengd er myndin Nimby, sem fer í framleiðslu á árinu 2019.

Framleiðandi – Jani Pösö

Jani Pösö (f. 1969) er reyndur höfundur og framleiðandi. Hann er framkvæmdastjóri og meðstofnandi finnska framleiðslufyrirtækisins It‘s Alive Films.

Pösö hóf feril sinn sem atvinnuhöfundur snemma á tíunda áratug síðustu aldar og hefur starfað í auglýsingabransanum, skemmti- og markaðsmálum, tískugeiranum, sem leikjahönnuður og framleiðandi í tónlist og leikhúsi, auk starfa sinna í kvikmyndabransanum.

Árið 2007 stofnaði hann framleiðslufyrirtækið It‘s Alive Films ásamt Teemu Nikki, handritshöfundi og leikstjóra. Síðan hafa þeir framleitt átta kvikmyndir og þáttaraðir í sameiningu, þar á meðal Góðhjartaða drápsmanninn, sem var valin til sýninga á yfir 15 alþjóðlegar hátíðir. Myndin vann til verðlauna fyrir besta handrit á kvikmyndahátíðinni í Tókíó og tveggja Jussi-verðlauna í Finnlandi, fyrir handrit og tónlist. Af samstarfsverkefnum þeirra Pösö og Nikki hefur borið hæst vefvarpsþáttaröðina #lovemilla, sem horft var á yfir 14 milljón sinnum í Finnlandi, og ungmennaþáttaröðina Sekasin (Mental). Sekasin er svört kómedía um geðvandamál ungmenna. Hún vann til verðlauna á finnsku Venla-hátíðinni sem besta barna- og ungmennaþáttaröðin árið 2017. Önnur sería verður frumsýnd í Finnlandi í október 2018. Jani Pösö vinnur nú að framleiðslu á Nimby, væntanlegri kvikmynd Teemu Nikki.

Framleiðsluupplýsingar

Titill á frummáli: Armomurhaaja

Leikstjórn: Teemu Nikki

Handrit: Teemu Nikki

Aðalhlutverk: Matti Onnismaa, Jari Virman, Hannamaija Nikander

Framleiðendur: Jani Pösö, Teemu Nikki

Framleiðslufyrirtæki: It’s Alive Films

Lengd: 100 mínútur

Dreifing í Finnlandi: Scanbox

Alþjóðleg dreifing: Wide