Handhafi kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2018

Vinneren av Nordisk Råds filmpris 2018 Kona fer í stríð

Handhafi kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2018: Kona fer í stríð.

Photographer
Johannes Jansson
Kona fer í stríð hlýtur kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2018.

Kona fer í stríð hlýtur kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2018. Það var tilkynnt rétt í þessu á verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs í Ósló. Kona fer í stríð hlýtur verðlaunin fyrir leiftrandi skemmtilega meðferð á hápólitísku viðfangsefni, sem og einkalífi 48 ára gamallar konu sem er hin óvænta hasarhetja myndarinnar.

Rökstuðningur dómnefndar

Í Kona fer í stríð er alvarlegum og brýnum vanda miðlað gegnum sterkan persónuleika sem gefst ekki upp. Halla, konan sem tekur lögin í sínar hendur til að vernda vistkerfi jarðarinnar, er leikin af Halldóru Geirharðsdóttur sem sýnir afburðagóða og agaða frammistöðu. Þegar Halla verður þess vör að eitthvað togar sterkar í hana en hugsjónirnar, nefnilega löngunin til að stofna fjölskyldu, er það sett fram á íhugulan hátt og án tilfinningasemi. Raunar má segja að Benedikt Erlingsson, sem leikstýrði myndinni og skrifaði einnig handrit ásamt Ólafi Egilssyni, sýni jafnmikla dirfsku og aðalpersóna myndarinnar. Dómnefndin kann vel að meta það sjálfsöryggi sem Benedikt sýnir þegar hann fléttar sérstöku andrúmslofti framandgervingar inn í spennuþrungin atriði og innileg augnablik með því að hafa lifandi tónlistarflutning í mynd og láta hljóðfæraleikarana túlka skap- og tilfinningasveiflur persónanna. Útkoman er frábær kvikmynd sem er leiftrandi skemmtileg í meðferð sinni á hápólitísku viðfangsefni, svo og einkalífi 48 ára gamallar konu sem er hin óvænta hasarhetja myndarinnar. Og ástin sem liggur til grundvallar frásögninni – ást á náttúrunni og á umkomulausu barni – skín í gegnum allt saman.