Kona fer í stríð – Ísland

Billede fra "Woman at War" (Island) - Halldóra Geirharðsdóttir
Photographer
Slot Machine
Íslenska kvikmyndin „Kona fer í stríð“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2018.

Halla er fimmtug og sjálfstæð. Fljótt á litið virðist líf hennar rólyndislegt, en í raun er hún virkur aðgerðasinni sem brennur fyrir umhverfismálum og hefur upp á sitt einsdæmi sagt áliðnaði á Íslandi leynilegt stríð á hendur. Halla er að undirbúa stærstu og djörfustu aðgerð ferils síns þegar henni berst óvænt bréf sem breytir öllu. Umsókn hennar um að ættleiða barn hefur verið samþykkt og hennar bíður nú lítil stúlka í Úkraínu. Fréttirnar verða til þess að Halla ákveður að binda enda á feril sinn sem spellvirki og bjargvættur hálendisins og láta draum sinn um móðurhlutverkið rætast. Áður en að því kemur skipuleggur hún þó eina lokaárás á áliðnaðinn.

Rökstuðningur dómnefndar

Þetta listaverk Benedikts Erlingssonar lyftir umræðunni um umhverfismál upp á annað plan. Allt frá upphafi myndarinnar má láta sér í léttu rúmi liggja hvort menn eru sammála boðskapnum eða ekki. Það er alltaf hægt að halda með persónunum, alltaf hægt að skilja baráttu þeirra og láta heillast af snjöllum lausnum í myndatöku, handriti og leik.

Leikstjórnin er afbragð, hlutverkaskipan ekki síðri. Halldóra á stórleik, svo afslöppuð í baráttu sinni, svo afslöppuð í leik, og ber myndina uppi með miklum ágætum. Kvikmyndatakan er einnig afbragðsgóð, hver einasta hreyfing kamerunnar nær að fanga atriðin sem skipta máli.

Handritshöfundar fylgja öllum formúlum og reglum við að byggja karakter en eru samt nógu djarfir til að taka áhættu með persónur sínar, þannig að handritið lyftist upp úr formúlunni. Tónlistin er sérstakur kapítuli í heildarverkinu, verður í raun órjúfanlegur hluti frásagnarinnar og tónlistarmennirnir í senn landvættir og verndarenglar.

Kona fer í stríð er sterk mynd og áhrifarík, full af sköpunargleði, og það sem skiptir ekki hvað minnstu, svo dásamlega skemmtileg á að horfa.

Handritshöfundur / leikstjóri / framleiðandi – Benedikt Erlingsson

Benedikt Erlingsson (f. 1969) er leikstjóri, höfundur og framleiðandi. Hann hefur getið sér gott orð fyrir leikstjórn á sviði og fyrir leik sinn í leikhúsi, sjónvarpi og kvikmyndum. Einleikir Benedikts, fluttir af honum sjálfum, hafa verið á meðal vinsælustu verka íslenskrar leikhússögu.

Fyrsta myndin í fullri lengd sem hann skrifaði og leikstýrði, Hross í oss, hlaut yfir 20 alþjóðleg verðlaun, þar á meðal sem besta frumraun leikstjóra á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í San Sebastián árið 2013 og kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2014.

Kona fer í stríð var heimsfrumsýnd á Critics‘ Week í Cannes árið 2018 og vann þar til SADC-verðlaunanna fyrir besta handrit.

Benedikt Erlingsson var verðlaunaður af stofnuninni Gan Foundation for Cinema árið 2016.

Handritshöfundur – Ólafur Egill Egilsson

Ólafur Egill Egilsson (f. 1977) útskrifaðist af leikarabraut Listaháskóla Íslands árið 2002 og hefur getið sér gott orð sem hæfileikaríkur handritshöfundur og leikari í sjónvarpi, kvikmyndum og leikhúsi.

Hann hefur hlotið fjölda viðurkenninga, meðal annars Grímuna árið 2011 fyrir sviðsaðlögun á skáldsögu Auðar Jónsdóttur, Fólkinu í kjallaranum, og verðlaun fyrir besta handrit á Austin Fantastic Film Festival fyrir handritið að Sumarlandinu (2010) eftir Grím Hákonarson, sem hann skrifaði ásamt leikstjóranum. Ennfremur hefur Ólafur Egill unnið oftsinnis með Baltasar Kormáki, en þeir skrifuðu saman handrit að myndunumSveitabrúðkaup (tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2008) og Eiðnum (2016), svo og hinni vinsælu þáttaröð Ófærð.

Einnig var hann einn handritshöfunda myndarinnar Brim, sem var tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2011.

Ólafur Egill skrifaði handritið að Kona fer í stríð ásamt leikstjóra myndarinnar, Benedikt Erlingssyni. Hún var heimsfrumsýnd á Critics‘ Week í Cannes árið 2018.

Framleiðandi – Marianne Slot

Marianne Slot (f. 1968) er frönsk en af dönsku bergi brotin. Hún er framkvæmdastjóri framleiðslufyrirtækisins Slot Machine, sem hún stofnaði árið 1993.

Á ferli sem spannar meira en aldarfjórðung hefur Marianne Slot starfað með fjölda alþjóðlegra kvikmyndaleikstjóra, þar á meðal Lars von Trier (allt frá Brimbroti 1996 til The House That Jack Built 2018). Aðrir leikstjórar sem Slot hefur átt í samstarfi við eru Lucrecia Martel, Bent Hamer, Małgorzata Szumowska, Thomas Vinterberg, Paz Encina, Lisandro Alonso, Albertina Carri, Susanne Bier, Emma Dante, Marian Crisan, Juliette Garcias, Yeşim Ustaoğlu, Sergei Loznitsa, Benedikt Erlingsson og Naomi Kawase.

Á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2015 var Slot sæmd riddarakrossi frönsku Lista- og bókmenntaorðunnar. Hún er meðlimur i Evrópsku kvikmyndaakademíunni.

Framleiðandi – Carine Leblanc

Carine Leblanc hefur starfað sem framleiðandi hjá Slot Machine í París frá árinu 2015.

Leblanc nam við Université Laval í Quebec-borg í Kanada og hefur yfir aldarfjórðungsreynslu sem framleiðandi sjónvarpsefnis og kvikmynda. Auk þess að hafa starfað fyrir fyrirtækin Télé Images, Gaumont, Pyramid og Cargo Films og hjá AGAT Films & Cie / Ex Nihilo í meira en áratug, hefur hún komið að öllum gerðum listrænnar framleiðslu á heimildamyndum, kvikmyndum, teiknimyndum, tölvuleikjum, auglýsingum, hljóðupptökum og tónleikum. Hún hefur starfað með fjölbreytilegu listafólki, meðal annars Benedikt Erlingssyni, Cédric Klapisch, Bertrand Blier, Marc Caro, Jean-Jacques Beineix, Níkos Papatákis, Denys Arcand, Sólveigu Anspach, Paul Vecchiali, Robert Guédiguian og Zbigniew Rybczyński. Eftir að hafa rekið Cargo Films (stofnað af leikstjóranum Jean-Jacques Beineix) um sautján ára skeið hefur Leblanc nú gengið til liðs við Marianne Slot í því skyni að kynna og styðja við verkefni hæfileikaríkra handritshöfunda og leikstjóra.

Framleiðsluupplýsingar

Titill á frummáli: Kona fer í stríð 

Leikstjórn: Benedikt Erlingsson

Handrit: Benedikt Erlingsson, Ólafur Egill Egilsson

Aðalhlutverk: Halldóra Geirharðsdóttir, Jóhann Sigurðarson

Framleiðendur: Marianne Slot, Benedikt Erlingsson, Carine Leblanc

Framleiðslufyrirtæki: Gulldrengurinn, Slot Machine

Lengd: 100 mínútur

Dreifing innanlands: Sena

Alþjóðleg dreifing: Beta Cinema