Handhafi tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2020

Sampo Haapamäki
Photographer
Mika Ranta
Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2020 hlýtur Sampo Haapamäki fyrir verkið „Konsertto neljäsosasävelaskelpianolle ja kamariorkesterille”, píanókonsert (2017).

Rökstuðningur dómnefndar

Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs 2020 hlýtur verkið Konsertto neljäsosasävelaskelpianolle ja kamariorkesterille („Konsert fyrir kvarttónapíanó og kammersveit“) eftir Sampo Haapamäki. Verkið sameinar með einstökum hætti náttúrulega tónlistargáfu, tilkomumikla færni og óþreytandi könnunarleiðangur á vit sígildrar tónlistarhefðar. Það kemur hlustandanum á óvart með leiftrandi tónmáli, í senn glænýju og kunnuglegu, og fangar athygli hans með meistaralegum smáatriðum frá fyrsta takti til hins síðasta.

 

Konsertinn er afurð langvinns rannsóknarstarfs sem tónskáldið lagðist í: til að semja þá tónlist sem hann vildi þurfti Haapamäki að finna upp sérstakt hljóðfæri – nýtt kvarttónapíanó. Í hinum margslungna heimi míkrótónanna leynist ýmislegt sem listin getur bæði boðið og krafist af okkur: viðkvæmni, þolinmæði og íhygli.

 

Þungamiðjan í höfundarverki Sampo Haapamäki eru kvarttónarnir sem hann hefur rannsakað í tónsmíðum sínum í meira en 15 ár. Haapamäki hefur samið órafmagnaða tónlist fyrir ýmiss konar flutningshópa, allt frá sinfóníuhljómsveitum til kóra, auk fjölrása hálfrafmagnaðrar tónlistar. Einnig hefur hann komið að þróun nýrra hljóðfæra sem ætluð eru til flutnings á kvarttónaverkum hans.

 

Sem tónskáld hefur Sampo Haapamäki skapað sína eigin sérstöku rödd – rödd sem dómnefndinni er sönn ánægja að heiðra með þessum verðlaunum.