Jenny Carlstedt

Jenny Carlstedt
Photographer
Marcus Boman
Jenny Carlstedt er á meðal þeirra 13 listamanna og hópa sem tilnefndir eru til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2017.

Eftir að hafa stundað nám við Síbelíusar-Akademíuna og Guildhall School of Music and Drama kom Jenny Carlstedt mezzósópran fyrst fram í uppsetningu Finnsku óperunnar á Cosi fan tutte árið 2001. Á árunum 2002 til 2016 var hún einsöngvari við óperuna í Frankfurt.

Fyrsti flutningur hennar í Bandaríkjunum var tónleikaflutningur á Pelléas et Mélisande eftir Debussy ásamt Sinfóníuhljómsveit Chicago-borgar undir stjórn Esa-Pekka Salonen. Chicago Review kallaði flutninginn „besta viðburð ársins 2015“. 

Jenny Carlstedt er einnig unnandi nútímatónlistar og hefur sungið hlutverk í mörgum nýlegum óperum. Í ár söng hún aðalhlutverkið í frumflutningi á Neljäntienristeys eftir Tapio Tuomela. Hún hefur sungið inn á fjölda hljómplatna og árið 2016 gaf hún út plötu með tónlist Zemlinskys ásamt kammerhljómsveit Lapplands og John Storgårds, sem gagnrýnendur gerðu góðan róm að.

Jenny Carlstedt hefur hlotið lof fyrir fágaða mezzósópranrödd sína, túlkanir á óperuhlutverkum, þokka og glettni. Hún er fjölhæfur og mikils metinn fulltrúi listrænnar tónlistar á Álandseyjum.