Jesper Wung-Sung

Jesper Wung-Sung
Photographer
Jacob Nielsen
Jesper Wung-Sung: Ud med Knud*. Skáldsaga, Forlaget Høst & Søn, 2014.

William er ofurvenjulegur 12 ára strákur sem fær krabbamein. Í kjölfarið tekur líf hans stakkaskiptum; hann getur hvorki farið í skólann né út að leika sér. Umhverfið breytist líka – ekki síst foreldrar hans – því nú þarf stöðugt að taka tillit til Williams. Veikindin verða æ fyrirferðarmeiri í lífi hans.

En William finnur upp ósýnilegan leikfélaga, Knud, sem er persónugervingur krabbans sem hefur tekið hann í gíslingu. Hann rífst við Knud. Hann lætur Knud reita sig til reiði. Hann skemmtir sér með Knud. Hann kynnist sjálfum sér og sjúkdómnum gegnum Knud. Knud ögrar honum á annan hátt en allt fólkið sem tekur tillit til hans. En vitanlega vildi hann feginn vera laus við Knud. Hann gerir margar tilraunir til að losna við hann, en þegar það tekst finnur hann fyrir söknuði – William hefur tengst Knud á sama hátt og gíslar finna stundum sterk tengsl við þá sem halda þeim föngnum.

Katrine, bekkjarsystir Williams, fylgist með gangi sjúkdómsins og kemst að þeirri niðurstöðu „að í hverri manneskju búi lítið barn sem þarf að læra að deyja“. Og það lærist ekki átakalaust. William heldur að Guð hafi ekki alveg verið tilbúinn þegar hann skapaði lífið; hann var eins og skólakrakki sem byrjar á að skrifa stíl án þess að hafa hugleitt framhaldið nánar.  

Jesper Wung-Sung tekst að láta rödd sögumannsins halda jafnvægi milli hluttekningar í garð krabbameinssjúks drengs og afkáralegra, gamansamra lýsinga á prakkaralegum samskiptum Williams og Knuds.

Hér er tekist á við nokkrar af hinum stóru spurningum lífsins. Málfarið verður aldrei flatt, kennaralegt eða hversdagslegt heldur hittir kaldranaleg og ástúðleg lífsorkan í mark hjá lesendum á aldrinum 12 til 100 ára.

  • Jesper Wung-Sung er fæddur árið 1971.
  • Fyrsta bók hans var smásagnasafnið To ryk og en aflevering (1998), en fyrir hana hlaut hann frumraunarverðlaun á BogForum-bókamessunni.
  • Síðan hefur hann skrifað fjölda bóka, innan ólíkra bókmenntagreina og fyrir alla aldurshópa.
  • Árið 2010 hlaut hann verðlaun danska menningarmálaráðuneytisins í flokki barna- og unglingabókmennta fyrir skáldsöguna Kopierne.
  • Sama ár hlaut hann Barnabókaverðlaun danskra skólabókavarða.

*) nafnið Knud vísar til danska orðsins yfir æxli: knude