Kammersveit Reykjavíkur

Kammersveit
Photographer
Ragnar Th. Sigurdsson
Hljómsveit

Kammersveit Reykjavíkur var stofnuð árið 1974 undir stjórn Rutar Ingólfsdóttur. Upprunalega voru í sveitinni tólf tónlistarmenn sem flestir voru nýkomnir heim úr framhaldsnámi í tónlist erlendis til að starfa við Sinfóníuhljómsveit Íslands og við Tónlistarskólann í Reykjavík. Markmiðið með stofnun hennar var að gefa áheyrendum kost á reglulegum tónleikum með kammertónlist frá ýmsum tímum, allt frá barokkinu til nútímans, og um leið að gefa hljóðfæraleikurunum tækifæri til að glíma við ólík og krefjandi verk.

Kammersveit Reykjavíkur er kunn fyrir fjölbreytt verkefnaval og mikilfenglega tónleika, þar á meðal ákaflega vinsæla jólabarokktónleika. Sveitin hefur pantað og flutt mörg af mikilvægustu verkum íslenskra tónskálda nútímans og mörg þeirra hafa verið samin sérstaklega fyrir sveitina. Kammersveit Reykjavíkur hefur verið iðin við útgáfu frá því hún var stofnuð. Á tónleikum sínum flytur hún hvort tveggja einstök meistaraverk frá síðustu öldum og frumflytur íslenska tónlist.