Mot naturen – Noregur

Mot naturen (Out of Nature) er nomineret til Nordisk Råds filmpris 2015

Ágrip

Mot naturen er ferðalag um hugarfylgsni aðalpersónunnar, Martins, og þaðan út í óbeislaða náttúruna. Martin er einn á fjallgöngu og allar hugsanir og hreinskilnislega óvægnar vangaveltur hans um sjálfan sig og sína nánustu renna óritskoðaðar til áheyrenda. Hugsanir hans og draumórar spanna allt frá ómerkilegum barnaskap til djúpra tilvistarpælinga. Þetta er saga ungs manns sem langar að fara ótroðnar slóðir.

Rökstuðningur dómnefndar

Í Mot naturen beinir Ole Gievær sjónum að lífsstíl nútímafólks og sjálfi hins norræna nútímamanns. Persónuleg og áleitin rödd sögumannsins kallar fram röð áhrifamikilla svipmynda í andrúmslofti sem þrungið er minningum, draumum, vonum og tilfinningum. Gegnumgangandi er glettni sem rúmar í senn vandræðalegheit, skömm og sársauka.

Leikstjóri/handritshöfundur – Ole Giæver

Ole Giæver (1977) er útskrifaður frá lista- og kvikmyndaháskólanum Nordland og frá Konstfack í Stokkhólmi. Stuttmynd hans Tommy var tilnefnd til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna árið 2007. Fyrsta kvikmyndin í fullri lengd sem hann leikstýrði og skrifaði handrit að, Fjellet, var valin til sýningar á Panorama-hátíðina í Berlín 2011.

Næsta mynd hans, Mot naturen, var heimsfrumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Toronto 2014 og sýnd á Panorama-hátíðinni í Berlín 2015, þar sem hún hlaut Evrópsku kvikmyndahúsaverðlaunin. Næsta verkefni Giævers er gamandramað Fra balkongen.

Framleiðandi – Maria Ekerhovd

Maria Ekerhovd hefur starfað við kvikmyndir frá útskrift sinni í fjölmiðlaframleiðslu frá vísinda- og tækniháskólanum í Noregi árið 1999. Ekerhovd framleiddi stuttmyndina Sniffer eftir Bobbie Peers, sem hlaut gullpálmann í Cannes 2006. 2009 framleiddi hún myndirnar Jernanger og Vegas og árið eftir stofnsetti hún fyrirtæki sitt, Mer Film. Meðal helstu leikstjóra sem tengjast fyrirtækinu má nefna Ole Giæver (Mot naturen), Iram Haq, Gunnar Vikene og Bobbie Peers. Ekerhovd vinnur sem stendur að nýrri mynd eftir Giæver, Fra balkongen, og spennumynd Haq, What Will People Say.

Hún var meðframleiðandi sænsku kvikmyndarinnar The Quiet Roar, alþjóðlegrar heimildarmyndar að nafni Cathedrals of Culture og Everything Will be Fine eftir Wim Wenders.

Framleiðsluupplýsingar

Titill á frummáli: Mot naturen

Leikstjóri: Ole Giæver

Handritshöfundur: Ole Giæver

Framleiðandi: Maria Ekerhovd

Framleiðslufyrirtæki: Mer Film

Aðalleikarar: Ole Giæver, Marte Magnusdotter Solem, Sivert Giæver Solem

Fulltrúar dómnefndar

Silje Riise Næss, Britt Sørensen, Kalle Løchen