Outi Tarkiainen

Outi Tarkiainen
Photographer
Sigel Eschkol
Tilnefnd fyrir verkið „Saivo“

Saxófónkonsertinn Saivo (2017) eftir Outi Tarkiainen er kraftmikið og tindrandi hljóðævintýri þar sem tjáningin lætur bíða eftir sér á stríðnislegan hátt. Orðið „saivo“ er sótt í gamla samíska trú og þýðir „tvíbotna stöðuvatn“. Undir vatninu leynist annað vatn og annar heimur þar sem yfirnáttúrulegar verur búa og endurspegla okkar heim. Konsertinn byggir hljómmiklar brýr milli sópransaxófóns og hljómsveitar. Smám saman birtist tálmynd af öðrum veruleika sem líkist þeim heimi sem við þekkjum en er samt frábrugðinn á undarlegan hátt. Verkið pantaði Tapiola Sinfonietta og er það tileinkað saxófónleikaranum Jukka Perko en hann hefur verið einn helsti sendiherra finnskrar djasstónlistar um þrjátíu ára skeið.

Outi Tarkiainen (f. 1985) er ungt finnskt tónskáld sem er á uppleið í heiminum. Hún hefur samið tónlist fyrir djasshljómsveitir og stjórnað þeim en nú einbeitir hún sér að tónsmíðum fyrir sinfóníuhljómsveitir, tónlistarhópa og kammersveitir. Outi Tarkiainen er fædd í Rovaniemi í Lapplandi nyrst í Finnlandi þaðan sem hún sækir innblástur sinn. Hún lærði tónsmíðar við Síbelíusar-akademíuna í Helsinki, Guildhall School í Lundúnum og University of Miami. Hún hefur verið gestatónskáld á Festival de Musique Classique d’Uzerche í Frakklandi og listrænn stjórnandi Silence Festival í Lapplandi.