Peter Lång

Ljósmyndari
Marcus Boman
Peter Lång tónskáld er tilnefndur til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2024 fyrir verkið „LUFT“ (2022).

Rökstuðningur

Í verkinu LUFT – Art of air, sem samið var árið 2022 af hinum álenska Peter Lång (f. 1963), kannar tónskáldið mörkin á milli tækni, vísinda og tónlistar. Hljómar úr djassi og óperu, sellóleikur og raftónlist í lifandi flutningi, auk gagna úr Copernicus, gervihnattakerfi Evrópusambandsins – allt þeta nýtir Lång til að móta mjúk gildi úr óþjálli tölfræði. 

 

Hlutar úr LUFT voru fluttir á Álandseyjum árið 2022 af sópransöngkonunum Johanna Almark og Lisa Fornhammar, Johanna Grüssner djasssöngkonu og Lydia Eriksson sellóleikara. Verkið var frumflutt í heild í Leipzig sama ár af Almark, Fornhammar og Dolores Huremovic, auk Sophia Günst sellóleikara. 

 

Sjálfur hefur Lång lýst LUFT sem íhugun um mælanlega veröld sem leitist við að stuðla að skilningi á gögnum með því að breyta þöglum tölum í list og tónlist. Lång hefur áður sent frá sér sjö óperur, eina óratóríu og tónlist fyrir kvikmyndir, sjónvarp og leikhús og heldur hér áfram að þróa sinn einstæða stíl. 

 

LUFT er byltingarkenndur samruni listar og vísinda þar sem Lång gefur okkur nýjar leiðir til að upplifa og skilja heiminn í kringum okkur.