Rúni Brattaberg

Rúni Brattaberg
Ljósmyndari
Eugen Zymner
Rúni Brattaberg er á meðal hinna 13 listamanna og hópa sem tilnefndir eru til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2019.

Rúni Brattaberg lærði upphaflega ljósmyndun en seint á þrítugsaldri varð honum ljóst að söngur gæti verið hans sanna köllun. Að loknu námi við Akademíu Síbelíusar í Helsinki og Opernstudio í Zürich var hann fastráðinn til þjóðleikhússins í Mannheim í Þýskalandi og síðar til Oper Leipzig, þar sem áhrifamikil bassarödd hans fékk að njóta sín í ýmsum stórum hlutverkum. Einnig hefur hann sungið við Bayerische Staatsoper í München, Bastilluóperuna í París, Hamburgische Staatsoper, Nationale Opera & Ballet í Amsterdam, Teatro San Carlo í Napolí, Chicago Lyric Opera og víðar.

Árið 2011 söng hann hlutverk Ochs baróns undir stjórn Sir Simon Rattle í Amsterdam. 2013 söng hann sama hlutverk við Metropolitan-óperuna í New York.

Árið 2021 mun Rúni Brattaberg syngja hlutverk Hagens í Ragnarökum eftir Richard Wagner undir stjórn Esa-Pekka Salonen í Helsinki.