Sara Lundberg

Fågeln i mig flyger vart den vill
Sara Lundberg: Fågeln i mig flyger vart den vill. Myndabók, Mirando Bok, 2017

Fågeln i mig flyger vart den vill („Fuglinn í mér flýgur hvert sem hann vill“, óþýdd) er ævisöguleg myndasaga um bernsku sænsku listakonunnar Bertu Hansson (1910–1994) í Hammerdal í Jamtalandi á fyrri hluta 20. aldar. Sara Lundberg byggir söguna á málverkum, bréfum og dagbókum Bertu þegar hún lýsir frelsisþrá ungrar stelpu sem vill brjótast undan kröfum bændasamfélagsins og fara sínar eigin leiðir.

Berta elst upp í sveit. Hún er yngst fjögurra systkina. Pabbi hennar stritar og mamma hennar er rúmliggjandi. Mamma er það besta sem Berta veit. Fallegu augun hennar, brún og góðleg. Auk þess er hún sú eina í fjölskyldunni sem skilur myndlistaráhuga Bertu og hvetur hana til dáða. Berta þráir ekkert heitar en faðmlag mömmu en það má ekki. Það segir læknirinn. Því berklar eru smitandi.

Berta teiknar til að halda lífi í mömmu sinni og hjálpa henni að batna. Hún ætlar að verða myndlistarmaður þegar hún verður stór, en hún segir engum frá því hún veit að það er ekkert almennilegt starf, allavega ekki fyrir stelpur. Pabbi vill að Berta og systur hennar verði húsmæður en það vill Berta ekki. Pabbi vill að Berta og systur hennar verði húsmæður en það vill Berta ekki. Hún getur ekki hugsað sér það. Hún fær að vera í friði hjá beljunum sem eru á beit. Þar getur hún teiknað. Stundum stelst hún heim til læknisins á kvöldin til að skoða myndirnar sem hanga þar á veggjunum.

Einn morguninn er mamma dáin og í sorginni glatar Berta trúnni á hæfileika sína. Fyrst hún gat ekki læknað mömmu með myndunum sínum hverju máli skiptir þá hvað hún gerir með höndunum?

En tíminn líður og læknirinn sem hefur áhuga á myndlist kveikir hjá henni áhuga á frekara námi. Smám saman vex andstaða Bertu við það líf sem pabbi hennar og hefðirnar hafa ákveðið fyrir hana.

Fuglum bregður oft fyrir í myndum Bertu Hansson. Í frásögn Söru Lundberg tákna þeir frelsisþrá Bertu, mótmæli hennar við hefðunum og kröfum umhverfisins um að hún aðlagi sig. Með ljóðrænni nákvæmni lýsir Sara Lundberg náinni tengingu myndlistarinnar við lífið og lífskraftinn:

Ég skrepp aftur niður að stóra skurðinum. 
Leirinn merlar á botninum. Ég moka.
Leirinn mótast án þess að ég ákveði neitt.
Það gerist bara.
Og skyndilega: snertir eitthvað lófa minn.
Lítið fuglshjarta goggar.
Vængir sem reyna að slíta sig lausa.
Og ég verð hrædd um að ég haldi of fast,
svo opna ég lófana ...
Þá hoppar hann og flýgur!

Kraftur ímyndunaraflsins og sköpunarinnar birtist einnig í myndum Söru Lundberg. Klippimyndir í samhljómi við þekjandi vatnslitaðan grunn skapa ferskt málverk og sterka litagleði sem sendir frá sér tregafullan og jafnframt óstýrilátan léttleika. Fagurfræðilega er bókin aðlaðandi, falleg og formið þaulhugsað. Rithöfundurinn og menningarblaðakonan Alexandra Sundqvist ritar eftirmála þar sem hún fer nánar út í þá kvennasögu sem hér er sagt frá.

Sara Lundberg er myndlistarmaður og rithöfundur og menntuð í Svíþjóð og Bandaríkjunum. Hún hefur haldið sýningar í Svíþjóð og víðar í Evrópu. Hún hefur hlotið ýmis bókmenntaverðlaun í Svíþjóð fyrir myndabækur sínar og hún var tilnefnd á heiðurslista IBBY 2014. Fågeln i mig flyger vart den vill hlaut hin virtu verðlaun Augustpriset og myndabókaverðlaunin Snöbollen fyrir bestu myndabók ársins. Sara Lundberg var tilnefnd til verðlauna Norðurlandaráðs árið 2011 fyrir Vita streck och Öjvind.