Sebastian Fagerlund

Sebastian Fagerlund
Ljósmyndari
Sirpa Räihä/Norden.org
Tilnefndur fyrir verkið „Mana“

Mana [Undirheimar] eftir Sebastian Fagerlund er konsert fyrir fagott og hljómsveit sem sökkvir hlustandanum niður í töfraþrungið andrúmsloft frá allrafyrstu nótu. Verkið, sem er tileinkað fagottsnillingnum Bram van Sambeek, vísar með heiti sínu á frumstæð og yfirskilvitleg öfl. Konsertinum vindur fram eins og torræðri helgiathöfn, og þróttmikið og tjáningarríkt tónmál Fagerlunds ásamt framúrskarandi skynbragði hans á leikræn tilþrif og hljómsveitartækni leiða hlustandann í uppgötvunarleiðangur að hætti seiðmanna handan rúms og tíma.

Sebastian Fagerlund (f. 1972) hefur skipað sér á bekk með þekktustu tónskáldum sinnar kynslóðar í Evrópu. Mikilvægir eðlisþættir í verkum Fagerlunds eru áhugi hans á viðamiklum formum og sú djúpstæða skoðun hans að tónlist túlki undirstöðuspurningar og tilvistarlega lífsreynslu.  Sem stendur er hann að vinna að nýrri óperu, Haustsónötu, sem byggð er á kvikmynd Ingmars Bergman og pöntuð af Finnsku þjóðaróperunni. Fagerlund verður staðartónskáld hjá Concertgebouw í Amsterdam starfsárið 2016–2017.