Sirpa Kähkönen: Graniittimies ("Granittmannen")

Sirpa Kähkönen
Photographer
Tommi Tuomi
Skáldsaga, Otava, 2014

Klara og Ilja eru ung hjón, full af trú á framtíðina. Þau segja skilið við allt sitt fyrra líf, meira að segja finnsk nöfn sín, og skíða sex hundruð kílómetra leið á vit fyrirmyndarríkis. Þar hyggjast þau taka þátt í því að byggja upp nýtt, frjálst og réttlátt samfélag. Sögusviðið er Petrograd árið 1922.

Í kjölfar borgarastríðsins í Finnlandi 1918 flýðu þúsundir finnskra kommúnista til Sovétríkjanna. Handan landamæranna í austri beið þó ekki sælustaður verkafólks, heldur hörð lífsbarátta við skort og eymd. Loks gengu ofsóknir Stalíns í garð og margir voru teknir af lífi sem fjandmenn ríkisins. Skýjaborgirnar urðu að engu og kommúnistar sem báru hugsjónir í brjósti áttu sér að lokum ekkert heimaland.

Sirpa Kähkönen þekkir tímasvið sögunnar eins og lófann á sér – eða lófa ömmu sinnar, þar sem þetta er öðrum þræði fjölskyldusaga – en hið sögulega samhengi er þó aðeins bakgrunnur fyrir átakanlegt og innilega mannlegt bókmenntaverk, er lyftir fram sögum fólks sem hefur verið sópað út á jaðar þjóðfélagsins og sem blæs lífi í borg sem nú er horfin með öllu.

Í verkum sínum hefur Kähkönen notað orðið „andrótóp“ yfir kunningja- og vinahópa liðinna tíma, þar sem örlög slíkra hópa gæða sögulega atburði lífi og lit. Og hvílíkur hópur, þessir vinir Klöru og Ilja í Petrograd! Tækifærissinninn Tom, unga sirkusstjarnan Shura, hin smekklega Jelena, viðskiptamógúllinn Henrik, hinn hæfileikaríki Galkin – og Lavr, yngri bróðir Ilja, sem horfist í augu við raunveruleikann og flýr aftur til Finnlands. Að ógleymdum Gæfusmiðunum, sem eru fjöldinn allur af munaðarlausum og niðurbrotnum götubörnum. Þeirra á meðal eru Genja og Dúnja, sem Klara gengur í móðurstað. Kähkönen notar þessar persónur til að veita mannlegt sjónarhorn á tannhjólin í gangverki kommúnismans og sýnir um leið hve auðvelt er að loka augunum – og hve seinvirkt og sársaukafullt getur reynst að opna þau.

Graniittimies er fyrst og fremst saga Klöru og götubarnanna. Ilja er sannur bolsévíki og situr í hægindastól merktum ríkinu, en á meðan virðir Klara þjóðfélagið fyrir sér frá hinni hliðinni og sér meira og skýrar en hann. Á tímum sárrar neyðar viðheldur hún föstum punktum í tilveru barnanna: súpueldhúsum, leikfimitímum, starfsnámi, prentun dagskrár fyrir hergöngur. „Stundum trúi ég því næstum,“ segir pabbi Shuru við Klöru. „Að það sé hægt að stofna lítið fyrirmyndarríki. Þér eruð þetta litla, Klara. Þér eruð lifandi dæmi um það.“ Og Klara svarar: „Er nokkuð annað raunverulega til en hið litla?“ Líkt og persónan Klara ber Kähkönen kennsl á táknrænt gildi og merkingu hins smáa og hvunndagslega í tengslum við stórar hugsjónir og formgerðir.

Graniittimies er skrifuð á lifandi og sjónrænu máli, sem ber í sér heillandi bergmál af ómi liðinnar tíðar. Í upphafi skáldsögunnar talar Klara eins og sjónarvottur sem miðlar atburðum til komandi kynslóða, fyrst um árin í Petrograd og síðar Leníngrad. Í þriðja kafla hittum við vinina fyrir í borginni Sjatsk, sem minnir á leiktjöld Tolstojs, og í þetta sinn er sögumaður einhver utanaðkomandi. Fjórði kafli er hjartaskerandi niðurlag sem slekkur hinstu vonarneistana um fyrirmyndarríki. Í fimmta kafla stöndum við í rústunum.

Þegar fyrirmyndarríkið tekur að hrynja flýr þjóðardýrið, björninn, úr sirkusnum og syndir með járnmúl um hálsinn eftir spegilsléttum en daunillum skurði, þaðan sem skíturinn flæðir upp á götur og inn í kjallara, inn í hreiður götubarnanna og gluggalaust afdrep Klöru og Ilja í kyndiklefanum.

Lenín deyr, Petrograd verður Leníngrad og finnskir hugsjónamenn teljast nú til óvina ríkisins. Götubörnin eru svikin af þeim sem þau treystu, fólk hverfur, skjölum og minningum er hent á bál. Þegar hreinsunaröldurnar brotna á borginni víkja fórnfýsi og hugsjónir endanlega fyrir sjálfselsku og sviksemi.

Lengi vel trúir Klara þó á hið ómögulega, en þegar bönnuð bók eftir Thomas More ratar að sjúkrabeði hennar í annað sinn er lítið eftir af trúnni, og fáein orð af vörum hennar segja allt sem segja þarf: „Það flýr frá okkur.“

Sirpa Kähkönen hefur hlotið verðlaun fyrir skrif sín og er þekkt fyrir verk sem hafa snert á viðkvæmustu tímaskeiðum finnskrar samtímasögu. Graniittimies var tilnefnd til Finlandia-bókmenntaverðlaunanna árið 2014.