Stille hjerte – Danmörk

Stille hjerte er nomineret til Nordisk Råds filmpris 2015

Ágrip

Þrír ættliðir fjölskyldu koma saman til helgardvalar. Sanne og Heidi hafa horfst í augu við það að móðir þeirra, sem er langt leidd af sjúkdómi, vill deyja áður en heilsu hennar hrakar enn frekar. Eftir því sem líður á helgina eiga dæturnar þó sífellt erfiðara með að takast á við ákvörðun móður sinnar, auk þess sem gömul ágreiningsmál láta á sér kræla.

Rökstuðningur dómnefndar

Meistaralega gerð og listilega leikin mynd. Leikstjórinn Bille August og handritshöfundurinn Christian Torpe hlýja áhorfendum um hjartarætur með sögu af ógleymanlegri helgi í lífi fjölskyldu. Móðurina langar að deyja og aðrir meðlimir fjölskyldunnar verða að takast á við það. Að sönnum norrænum sið er flett ofan af öllum leyndarmálum í kvikmynd sem fjallar um eitthvert erfiðasta viðfangsefni nokkurrar fjölskyldu: að kveðja nákominn ættingja.

Leikstjóri – Bille August

Bille August (1948) lauk námi í kvikmyndagerð frá Kvikmyndaskóla Danmerkur árið 1973. Hann öðlaðist heimsfrægð fyrir myndina Pelle sigurvegari (1987), sem hlaut bæði gullpálmann í Cannes og Óskarsverðlaun í flokki erlendra mynda. Annan gulllpálma hlaut August árið 1992 fyrir kvikmyndina Den goda viljan. Frá fyrri hluta 10. áratugarins hefur hann unnið jöfnum höndum að leikstjórn danskra mynda og alþjóðlegum samstarfsverkefnum. Á meðal helstu verka hans eru Hús andanna (The House of the Spirits, 1993), Jerúsalem(1996), Bless, Bafana (Goodbye Bafana, 2007) og Stille hjerte, sem hlaut Bodil-verðlaun danskra kvikmyndagagnrýnenda í fjórum flokkum, meðal annars sem besta myndin. Næsta mynd Augusts er 55 Steps, sem er á ensku og skartar Helenu Bonham Carter og Veru Farmiga í aðalhlutverkum.

Handritshöfundur – Christian Torpe

Christian Torpe (1978) nam kvikmynda- og fjölmiðlafræði við Kaupmannahafnarháskóla og lærði handritaskrif hjá hinum gamalreyndu bandarísku handritshöfundum Nancy Steen og Fred Rubin. Fyrsta verkefni Torpes var sjónvarpsþáttaröðin Maj & Charlie. Hann sló svo í gegn sem höfundur sjónvarpsþáttanna Rita, en þriðja þáttaröðin er sýnd í dönsku sjónvarpi um þessar mundir. Hann er einnig höfundur gamanþáttaraðarinnar Hjørdis, sem byggir á persónum úr Ritu.  Sem stendur vinnur hann að tveimur nýjum þáttaröðum fyrir bandarísku fyrirtækin AMC og Warner Brothers.  Af samstarfsverkefnum má nefna gamanmynd Hellu Joof, Sover Dolly på ryggen?, og Stille hjerte eftir Bille August, sem hlaut Bodil-verðlaun 2015 fyrir besta handrit.

Framleiðandi – Jesper Morthorst

Jesper Morthorst (1977) útskrifaðist frá kvikmyndaháskólanum Super 16 árið 2006 og er með B.A.-gráðu í kvikmynda- og fjölmiðlafræði frá Kaupmannahafnarháskóla. Hann hefur unnið fyrir Nimbus Film og Alphaville Pictures og starfar nú sem framleiðandi hjá SF Film Production. Undanfarinn áratug hefur hann framleitt yfir 20 kvikmyndir og þáttaraðir, svo sem verðlaunaheimildarmyndirnar Afghan Muscles eftir Andreas M. Dalsgaard, Ønskebørn eftir Birgitte Stærmose og sjónvarpsþáttaröðina RitaStille hjerte eftir Bille August var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í San Sebastian, þar sem Paprika Steen hlaut verðlaun fyrir besta leik í aðalhlutverki.

Sem stendur vinnur Morthorst að íslensku kvikmyndinni Hjartasteinn ásamt Guðmundi Arnari Guðmundssyni (Whale Valley).

Framleiðsluupplýsingar

Titill á frummáli: Stille hjerte

Leikstjóri: Bille August

Handritshöfundur: Christian Torpe

Framleiðandi: Jesper Morthorst

Framleiðslufyrirtæki: SF Film Production

Aðalleikarar: Ghita Nørby, Morten Grunwald, Paprika Steen, Danica Curcic, Pilou Asbæk

Fulltrúar dómnefndar

Per Juul Carlsen, Eva Novrup Redvall, Jakob Wendt Jensen