Trond Reinholdtsen

Trond Reinholdtsen
Ljósmyndari
Jesper Palermo
Trond Reinholdtsen er tilnefndur til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2020 fyrir verkið „Theory of the Subject“. Píanókonsert (2016).

Rökstuðningur:

Fílharmóníuhljómsveit Óslóar frumflutti verkið á Ultima tónlistarhátíðinni á árinu 2016 undir stjórn Cathrine Winnes. Einleikari var Ellen Ugelvik.

Píanókonsertinn er allt í senn konsert, gjörningur, listfræðifyrirlestur og pólitískur áróður. Verkið horfir á sig utan frá og slöngvar sögulegum og bókmenntalegum tilvísunum í allar áttir. Reinholdtsen blandar saman ólíkum hljóðmiðlum, myndskeiðum af óhátíðlegri beinni útsendingu frá tjaldabaki, tilvísunum í fyrri tónleika og hefðbundinni hljómsveit sem virðist ekki hirða um að einleikarinn eigi í stökustu vandræðum. Einleikarinn er sendur baksviðs en sjálfspilandi píanó tekur við hlutverki hennar á sviðinu. Smám saman tekst henni að endurheimta sæti sitt við flygilinn en þá verður tónlistin staglkennd og herská. Að lokum skríður „einleikarinn“ undir flygilinn og lýkur tónleikunum á því að skera af sér fingurna í beinni útsendingu á stórskjá.

Verkið sameinar háþróað og hefðbundið hljómsveitarverk, dadaisma og gjörning með því markmiði að fara yfir og hæðast að mörkum og skilningi fólks.

Trond Reinholdtsen (f. 1972) ögrar hefðbundnum formum en er jafnframt alvarlegt tónskáld sem streitist við að finna „tónlistaranda“ sinn (sem birtist í líki draugalegrar afturgöngu í bakherberginu og síðar þar sem hann veltir sér upp úr leðju). Tónlist Reinholdtsen hefur þróast í öfgakennda gjörninga og einkennist af því hvernig hrein tónlistin sameinast ýmsum öðrum tjáningarformum.