Vanskabte Land / Volaða Land - Danmörk

DA Vanskabte land
Photographer
Snowglobe / Join Motion Pictures
Danska kvikmyndin „Volaða land“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2022.

Volaða land gerist seint á síðustu öld og fjallar um ungan danskan prest sem ferðast til afskekkts hluta Íslands til að byggja kirkju og taka ljósmyndir af íbúum. En því lengra sem hann heldur inn í óbyggðirnar þeim mun lengra fjarlægist hann ætlunarverk sitt.

Rökstuðningur

Á tímum þar sem margar þjóðir þurfa að fara í saumana á fortíð sinni er ný kvikmynd Hlyns Pálmasonar í senn mögnuð og nærgætin íhugun um samband Danmerkur og Íslands.

Danskur prestur ferðast um harðgerða íslenska náttúru með háleit markmið en þarf fljótt að viðurkenna skort sinn á líkamlegu og andlegu atgervi. Hlynur Pálmason, sem stundaði nám í kvikmyndgerð í Danmörku, gerir þessu ferðalagi skil með samblandi af rósemd Carl Th. Dreyer, lifandi húmor og næmum skilningi á skuggahlið trúarinnar og hinum vandasömu skilum á milli tveggja menningarheima.

Kvikmyndin snýst um fyrstu ljósmyndina sem fannst á Íslandi og öfugt við prestinn tekst Hlyni Pálmasyni ætlunarverk sitt. Að fá fortíðina til að standa ljóslifandi með ófyrirsjáanlegri sögu og fallegum myndmáli, sem hann fangar í hlutföllunum 4:3 sem færir landslagið fram í nýju ljósi.

Í stærsta verki sínu til þessa leitar Hlynur Pálmasson fanga í fyrri myndir sínar hvað varðar umfjöllun um karlmennskuna og fagurfræðilegt næmi.

 

Handritshöfundur og leikstjóri – Hlynur Pálmason

Hlynur Pálmason er listamaður og kvikmyndagerðarmaður sem fæddist á Íslandi árið 1984. Eftir að hafa lagt stund á myndlist ákvað Hlynur að snúa sér að kvikmyndagerð og hefja nám við Kvikmyndaskóla Danmerkur.

Hann hlaut alþjóðlegt lof fyrir fyrstu kvikmynd sína í fullri lengd, Vetrarbræður, sem frumsýnd var í keppnisflokki á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Locarno 2017, þar sem hún hlaut fern verðlaun. Önnur kvikmynd hans, Hvítur, hvítur dagur, fékk sömuleiðis mikið lof í kjölfar frumsýningar hennar á Critics‘ Week í Cannes árið 2019. Bæði Vetrarbræður og Hvítur, hvítur dagur voru tilnefndar til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs árin 2018 og 2019.

Þriðja kvikmynd hans Volaða land var heimsfrumsýnd í flokknum Un Certain Regard á kvikmyndahátíðinni í Cannes 2022.

Framleiðandi – Eva Jakobsen

Eva Jakobsen (fædd 1977) er framleiðandi hjá Snowglobe í Kaupmannahöfn. Þar hefur hún komið að framleiðslu fjölda kvikmynda í leikstjórn helstu listrænu leikstjóra heims, m.a. Jonas Carpignano, Joachim Trier, Eskil Vogt, og Jonas Alexander Arnby. Hún hefur einnig stutt við frumverk danskra kvikmyndagerðarmanna á borð við Jeanette Nordahl, Marianne Blicher, Ingeborg Topsøe og Martin Skovbjerg.

Á meðal nýrra verkefna eru The Blue Caftan eftir Maryam Touzani og Verdens verste menneske eftir Joachim Trier. Kvikmynd Hlyns Pálmasonar, Volaða land, sem var heimsfrumsýnd á Cannes er þriðja samvinnuverkefni þerra Jakobsen.

Áður en hún gekk til liðs við Snowglobe starfaði Jakobsen hjá Nimbus Film og Zentropa. Hún hefur einnig komið að framleiðslu Antboy og Antboy-Revenge of the Red Fury. Hún er með B.A. gráðu í kvikmyndum og miðlum frá Kaupmannahafnarháskóla og var valin upprennandi framleiðandi („Producer on the Move“) á Cannes-hátíðinni árið 2014.

Framleiðandi – Katrin Pors

Katrin Pors (fædd 1983) er framleiðandi og er þekkt fyrir að brúa bilið á milli Latínsku-Ameríku og Norður-Evrópu. Hún er einn af stofnendum framleiðslufyrirtækisins Snowglobe í Kaupmannahöfn. Pors er með meira en áratuga reynslu sem framleiðandi og hefur komið að framleiðslu fjölda verkefna heimsfrægra leikstjóra á borð við Amat Escalante, Annemarie Jacir, Jonas Capriagno, Carlos Reygadas og Ralitza Petrova. Á meðal nýjustu verkefna hennar eru Birds of Passage í leikstjórn Ciro Guerra og Cristina Gallego, meðframleiðsla á Verdens verste menneske eftir Joachim Trier og Monos eftir Alejandro Landes. Volaða Land er þriðja verkefnið sem hún vinnur með Hlyni Pálmassyni eftir Hvítur, hvítur dagur (2019) og Hreiður (2022).

Pors útskrifaðist frá Escuela Internacional de Cine y Televisión á Kúbu og Media Business School á Spáni. Hún er einnig með gráðu í alþjóðaviðskiptum og alþjóðastjórnmálum frá Copenhagen Business School.

Framleiðandi – Mikkel Jersin

Mikkel Jersin (fæddur 1980) útskrifaðist frá Kvikmyndaskóla Danmerkur árið 2011. Hann er einn af stofnendum framleiðslufyrirtækisins Snowglobe í Kaupmannahöfn.

Síðustu 15 ár hefur hann unnið að meira en 40 kvikmyndum, heimildarmyndum og sjónvarsþáttaröðum. Hann framleiddi m.a. verðlaunaða mynd Rúnars Rúnarssonar, Þrestir, Godless eftir Ralitza Petrova og Wildland eftir Jeanette Nordahl og fleiri. Á meðal síðustu verkefna hans eru Miss Viborg efter Marianne Blicher og meðframleiðsla á Verdens verste menneske eftir Joachim Trier og The Blue Caftan eftir Maryam Touzani.

Godland er þriðja samvinnuverkefni hans og Hlyns Pálmasonar á eftir Hvítur, hvítur dagur (2019) og Hreiður (2022). Hann var valinn upprennandi framleiðandi („Producer on the Move“) á Cannes-hátíðinni árið 2016.

Framleiðandi – Anton Máni Svansson

Anton Máni Svansson (fæddur 1984) er framleiðandi og framkvæmdastjóri Join Motion Pictures í Reykjavík sem hann stofnaði ásamt Guðmundi Arnari Guðmundssyni árið 2007. Hann lagðst stund á sálfræði, heimspeki og handritagerð í Háskóla Íslands áður en hann hóf að framleiða stuttmyndir og tónlistarmyndbönd árið 2007. Hann hefur komið að framleiðslu 15 kvikmynda síðustu 15 árin, oftast með Guðmundi Arnari, t.d. Hjartasteinn og Berdreymi.

Volaða Land er fimmta samstarfsverkefni hans með Hlyni Pálmasyni en áður hafa þeir unnið saman að Seven Boats (2014), Vetrarbræður (2017), Hvítur, hvítur dagur (2019) og Hreiður (2022)Volaða land er fjórða kvikmynd Antons Mána sem tilnefnd til er kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs á eftir Hjartasteinn (2017), Vetrarbræður (2018) og Hvítur, hvítur dagur (2019).

Hann var valinn upprennandi framleiðandi („Producer on the Move“) á Cannes-hátíðinni árið 2017 og hlaut Lorens-verðlaunin sem besti framleiðandinn á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg sama ár fyrir myndina Hjartasteinn.

Framleiðsluupplýsingar

Titill á frummáli: Vanskabte Land / Volaða Land

Leikstjóri: Hlynur Pálmason

Handritshöfundur: Hlynur Pálmason

Aðalhlutverk: Elliott Crosset Hove, Ingvar Sigurðsson, Vic Carmen Sonne, Ída Mekkin Hlynsdóttir, Jacob Hauberg Lohmann

Framleiðendur: Katrin Pors, Mikkel Jersin, Eva Jakobsen, Anton Máni Svansson

Framleiðslufyrirtæki Snowglobe (Danmörk) í samstarfi við Join Motion Pictures (Ísland)

Lengd: 143 mínútur

Dreifing í heimalandi: Scanbox (Danmörk), Sena (Ísland)

Alþjóðleg dreifing: New Europe Film Sales