Verðlaunahafi 2010

Fra filmen Submarino
Ljósmyndari
Per Arnesen
Danski kvikmyndaleikstjórinn Thomas Vinterberg, handritshöfundurinn Tobias Lindholm og framleiðandinn Morten Kaufmann hljóta eftirsóttustu kvikmyndaverðlaun Norðurlanda.

Verðlaunahafi kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2010 er fundinn. Í ár verða eftirsóttustu kvikmyndaverðlaun Norðurlanda veitt danska kvikmyndaleikstjóranum og handritshöfundinum Thomas Vinterberg, handritshöfundinum Tobias Lindholm og framleiðandanum Morten Kaufmann fyrir kvikmyndina Submarino.

Dómnefnd þessa árs skipuð þeim Anne Jerslev lektor (DK), Johanne Grönqvist ritstjóra (FI), Sif Gunnarsdóttir kvikmyndagagnrýnanda (IS), Le LD Nguyen kvikmyndagagnrýnanda (N) og Eva af Geijerstam kvikmyndagagnrýnanda (SV) rökstyður ákvörðun sína með eftirfarandi hætt:

"Submarino er óvægin en jafnframt áhrifamikil saga tveggja bræðra sem tengjast vegna örlagaríkra atburða í æsku. Myndin fjallar um bræður sem axla ábyrgð fullorðinna og um hvernig barn fær félagslegar aðstæður í arf, en einnig um von um betri framtíð. Í myndinni er fjallað um þemu eins og áföll, sekt og sættir. Submarino er einfalt en jafnframt flókið listaverk, handritið er heilsteypt og leikstjórnin stílviss. Fínleg og þétt innri bygging sem gengur upp, nálægð í leiknum og snjöll notkun hljóðs og ljóss stuðla að því að skapa þessa áleitnu mynd af lífi fólks."

Submarino var frumsýnd í kvikmyndahúsum í Danmörku í mars og er talin ein af bestu myndum ársins af gagnrýnendum. Myndin tók þátt í aðalkeppni kvikmyndahátíðarinnar í Berlín á þessu ári og hefur verið sýnd á hátíðum í London, Sao Paolo og Los Angeles. Hún hlaut gagnrýnendaverðlaun á norrænu kvikmyndahátíðinni í Haugasundi og aðalverðlaun Film by Sea 2010 í Hollandi. Í desember keppir myndin um tilnefningu til evrópsku EFA verðlaunanna auk þess að vera ein af þremur myndum sem tilnefndar voru fyrir hönd Dana til að keppa um Óskarsverðlaunin fyrir bestu erlenda kvikmyndina.

"Ég er afar ánægður og stoltur yfir því að hljóta kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs. Í Danmörku og á Norðurlöndum almennt er framleiddur fjöldi góðra kvikmynda og ég ber einnig virðingu fyrir þeim sem meta myndirnar. Þetta er mikill heiður. Ég lít ekki eingöngu á verðlaunin sem viðurkenningu fyrir okkur sem stöndum að SUBMARINO heldur fyrir danska kvikmyndagerð í heild sinni. Viðurkenningu sem staðfestir kraftinn í og nauðsyn þess að skapa og standa við bakið á danskri kvikmyndagerð á listrænum forsendum. Hvatningu til danskrar kvikmyndagerðar að halda áfram að teygja sig yfir landamæri landsins", segir Thomas Vinterberg.