Yona

Yona

Yona - foto Ari Roukola

Photographer
Ari Roukola
Yona er tilnefnd til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2022 fyrir verkið „Uni johon herään“ (plata) (2021).

Rökstuðningur

Yona (Johanna Rasmus, f. 1984) er finnsk söngkona og lagahöfundur sem hefur gefið út átta breiðskífur undir eigin nafni. Hún er persónuleg tónlistarkona sem fer sínar eigin leiðir, og flakkar fimlega á milli mismunandi greina tón- og ljóðlistar í sköpun sinni á tímalausri popptónlist sem blandar saman því besta úr ýmsum áttum. Nýjasta plata Yonu, Uni johon herään („Draumur sem ég vakna til“,) (2021) er frá listrænu sjónarmiði sú metnaðarfyllsta í þegar mikilsvirtu höfundarverki hennar. Með plötunni, sem unnin var í samstarfi við hljómsveitina Tapiola Sinfonietta, hefur tónlistarkonan gert gamlan draum að veruleika. Plötuna framleiddi hún sjálf ásamt Mauri Syrjälä.

 

Að sögn Yonu sjálfrar er Uni johon herään plata úr „millibilsástandi“. Á plötunni er skilnaði tónlistarkonunnar lýst af innri krafti sem er annars vegar innilegur og viðkvæmur, hins vegar ofsafenginn og hrjúfur. Hin skapandi vinna og túlkun í flutningi Yonu hefur breiðan skala styrkleikabreytinga og blæbrigða sem spanna margbreytilegt hugarástand. Samstarf við sinfóníuhljómsveit virðist ekki endilega liggja beint við fyrir popptónlistarkonu, en verður einkar eðlilegt í þessu tilfelli. Jafnframt því nýtir Yona sér ýmis verkfæri tónlistarinnar, allt eftir því hvort þörf er á rappi, raftónlist eða hljómsveitarhljómi, til að koma boðskap sínum á framfæri. Útkoman hefur gert hlustendur agndofa og í Finnlandi hafa bæði almenningur og gagnrýnendur lýst Uni johon herään sem meistaraverki. Platan var tilnefnd til hinna finnsku Emma-verðlauna árið 2022 í þremur flokkum: fyrir tónlistarflytjanda ársins, dægurlagaplötu ársins og til gagnrýnendaverðlauna.

 

Tengill