Flugt – Danmörk

Flee
Ljósmyndari
Final Cut for Real
Danska kvikmyndin „Flugt“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Flugt („Flótti“) segir ótrúlega en sanna sögu manns að nafni Amin, sem er að fara að gifta sig og finnur sig því knúinn til að svipta hulunni af eigin fortíð í fyrsta sinn. Leyndarmálið sem hann hefur geymt í meira en 20 ár gæti eyðilagt þá tilveru sem hann hefur byggt sér. Hann segir söguna af átakamikilli ferð sinni sem flóttamanns á barnsaldri frá Afganistan til Danmerkur. Með frásögn sem er að stærstum hluta teiknuð spinnur Flugt magnaðan vef mynda og minninga í áhrifamikla og frumlega sögu af ungum manni sem tekst á við eigin erfiðu fortíð í tilraun til að finna sitt sanna sjálf og þá þýðingu sem „heimili“ hefur fyrir honum.

Rökstuðningur

Sjaldgæft er að hið fagurfræðilega, pólitíska og manneskjulega fari saman í eins mikilfenglegri og listrænni heild og í Flugt. Í þessari teiknuðu heimildarmynd segir æskuvinur leikstjórans, Amin, í fyrsta sinn átakamikla sögu sína sem samkynhneigðs flóttamanns frá Afganistan þegar hann stendur á krossgötum í lífi sínu í Danmörku: Hann ætlar að gifta sig.

Myndin setur flóttafólksumræðu samtímans í áþreifanlegt og átakanlegt samhengi og um leið er auðvelt að lifa sig inn í almennan tilvistarefa Amins, sem myndin tekst á við með næmri og á stundum kíminni tilfinningu fyrir smáatriðum og andrúmslofti.

Sú aðferð að teikna söguna leysir með snilldarlegum hætti tvær praktískar áskoranir, sem eru annars vegar nafnleysi aðalpersónunnar og hins vegar skortur á tiltæku myndefni. Jafnframt lyftir þessi stílhreina útfærsla frásögninni upp og gerir hana að skynrænni upplifun, allt frá lýsingunni á hamingjuríkri æsku í Afganistan til erfiðs flótta áleiðis til Evrópu.

Flugt segir afar mikilvæga og áhrifaríka sögu um það að allar manneskjur, óháð uppruna, aldri og kynhneigð, eigi rétt á hamingjuríkri bernsku og öruggu landi að búa í.

Handritshöfundur/leikstjóri – Jonas Poher Rasmussen

Dansk-franski handritshöfundurinn og leikstjórinn Jonas Poher Rasmussen (1981) útskrifaðist frá danska kvikmyndaskólanum Super16 árið 2010. Hann hlaut lof fyrir frumraun sína, sjónvarpsheimildarmyndina Noget om Halfdan, árið 2006 og skrifaði í kjölfarið fjölda heimildarþátta fyrir útvarp. Fyrsta mynd hans í fullri lengd, Searching for Bill  – blanda heimildarmyndar og skáldskapar – hlaut Nordic:Dox-verðlaunin á CPH:DOX árið 2012 og verðlaun sem besta alþjóðlega myndin á Docaviv. Heimildarmyndin Det han gjorde hlaut FIPRESCI-verðlaunin á kvikmyndahátíðinni í Þessalóníku árið 2016. Teiknaða heimildarmyndin Flugt var valin til sýningar á Cannes 2020 og hlaut fjölda virtra verðlauna á hátíðum um allan heim árið 2021, þar á meðal Grand Jury-verðlaunin á Sundance-hátíðinni, Dragon-verðlaunin fyrir bestu norrænu heimildarmyndina á hátíðinni í Gautaborg og Cristal-verðlaunin fyrir bestu myndina í fullri lengd á teiknimyndahátíðinni í Annecy.

Handritshöfundur – Amin

Framleiðandi – Monica Hellström

Monica Hellström er með MA-gráðu í kvikmyndafræði frá Kaupmannahafnarháskóla og BA-gráðu í kvikmyndafræði frá Bedfordshire-háskóla í Bretlandi. Hún hefur verið fastráðinn framleiðandi hjá Final Cut for Real í Danmörku síðan 2010. Hellström starfaði áður hjá Upfront Films og kvikmyndavinnusmiðju dönsku kvikmyndastofnunarinnar. Hún var valin upprennandi framleiðandi („Producer on the Move“) á Cannes-hátíðinni árið 2020. Undanfarinn áratug hefur hún unnið að yfir 20 myndum, þar á meðal Moon Rider eftir Daniel Dencik, sem hlaut Reel Talent-verðlaunin á CPH:DOX árið 2012, og myndunum Chikara: Sumobryderens søn (2013), The Fencing Champion (2014) og Olegs krig eftir Simon Lereng Wilmont, en sú síðastnefnda hlaut yfir 30 verðlaun, þar á meðal Best First Appearance Film á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Amsterdam 2017. Heimildarmyndin Skyggebarn eftir Cille Hannibal og Christinu Hanberg hlaut Special Mention-verðlaun á CPH:DOX 2021 og áhorfendaverðlaun á DOK.fest í München sama ár.

Hellström var einnig meðframleiðandi The Nile Hilton Incident, verðlaunaspennumyndar eftir Tarik Saleh, og írsku myndarinnar Good Favour eftir Rebeccu Daly.

Framleiðandi – Charlotte de La Gournerie

Charlotte de la Gournerie er meðeigandi og framleiðandi hjá Sun Creature Denmark og framkvæmdastjóri Sun Creature France. Hún lauk námi frá hinum virta skóla École des Gobelins í Frakklandi með áherslu á framleiðslu teiknimynda og margmiðlun og hóf starfsferilinn sem framleiðslustjóri í Frakklandi. . Eftir að hafa sótt vinnusmiðjuna „Animation Sans Frontières“ með stuðningi Creative Europe flutti hún til Danmerkur til að starfa sem kvikmyndaframleiðandi. Árið 2015 varð hún meðeigandi í Sun Creature Studio.

Á meðal þeirra teiknimynda sem framleiddar eru hjá Sun Creature eru Cartoon Network-þættirnir The Heroic Quest of the Valiant Prince Ivandoe og hin væntanlega Netflix-þáttaröð Splinter Cell, sem byggð er á samnefndum tölvuleik frá Ubisoft. Flugt er fyrsta teiknimynd de la Gournerie í fullri lengd.

Framleiðandi – Signe Byrge Sørensen

Signe Byrge Sørensen (1970) er framleiðandi og framkvæmdastjóri hjá einu helsta framleiðslufyrirtæki Danmerkur, Final Cut for Real, og hefur tvisvar hlotið tilnefningu til Óskarsverðlauna fyrir heimildarmyndirnar The Act of Killing og The Look of Silence. Hún hefur meistaragráðu í alþjóðlegum þróunarfræðum og samskiptafræðum frá Hróarskelduháskóla (1998) og er útskrifuð frá EURODOC og EAVE.

Sørensen hefur starfað sem framleiðandi frá 1998, fyrst hjá SPOR media og svo hjá Final Cut Productions Aps. Árið 2009 stofnaði hún Final Cut for Real ásamt Anne Köhncke. Hún hefur framleitt yfir 50 heimildarmyndir frá löndum um allan heim – Suður-Afríku, Simbabve, Senegal, Taílandi, Indónesíu, Kólumbíu og Argentínu, auk norrænu landanna. Auk The Act of Killing og The Look of Silence eftir Joshua Oppenheimer, sem hlutu lof víða um heim, hefur Sørensen meðal annars framleitt Les Sauteurs, sem var tilnefnd til Prix Europa-verðlauna 2016, Songs of Repression sem vann til verðlauna á CPH:DOX 2020, President sem hlaut sérstök dómnefndarverðlaun í flokknum „World Documentary“ á Sundance-hátíðinni 2021, og Our Memory Belongs to Us, sem hlaut Special Mention-verðlaun á CPH:DOX 2021. Í heimalandinu hlaut Sørensen Roos-verðlaunin árið 2014, Timbuktu-verðlaunin 2014 og Ib-verðlaunin 2016.

Upplýsingar um myndina

Titill á frummáli: Flugt

Titill á ensku: Flee

Leikstjóri: Jonas Poher Rasmussen

Handritshöfundur: Jonas Poher Rasmussen, Amin

Framleiðendur: Monica Hellström, Charlotte de La Gournerie, Signe Byrge Sørensen

Framleiðslufyrirtæki: Final Cut for Real

Lengd: 90 mínútur

Dreifing í heimalandi: Reel Pictures

Alþjóðleg dreifing: Cinephil