Grete Pedersen

Grete Pedersen
Ljósmyndari
Grete Pedersen
Grete Pedersen er á meðal hinna 13 listamanna og hópa sem tilnefndir eru til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2019.

Kór- og hljómsveitarstjórinn Grete Pedersen (f. 1960) hefur þróað flutningshefð í kórtónlist sem vakið hefur athygli á alþjóðavísu. Hún hefur verið listrænn stjórnandi Det Norske Solistkor frá 1990, en undir hennar stjórn hefur kórinn flutt sígild verk, norska þjóðlagatónlist, ýmis stórvirki kórtónlistar frá 20. öld og nútímatónlist, ávallt af nákvæmni og einlægni. Hún sýnir frumleika í vali sínu á tónverkum og samflytjendum, þvert á tímabil og tónlistargreinar. Einnig hefur hún aukið veg norrænnar tónlistar með störfum sínum – til dæmis hafnaði upptaka Det Norske Solistkor á tónlist eftir Alfred Janson á lista tímaritsins Gramophone yfir bestu plötur ársins 2018. Aðeins mánuði áður hlaut kórinn hin virtu Diapason d‘Or verðlaun fyrir geisladisk sinn með mótettum eftir J.S. Bach. Diskurinn As Dreams inniheldur tónlist eftir tónskáldin Nørgård, Janson og Saariaho, auk Xenakis og Lachenmann. Pedersen er reglulega gestastjórnandi hjá kór sænska ríkisútvarpsins og Nederlands Kamerkoor, auk fleiri kóra og hljómsveita. Ásamt kammerkór Óslóar, sem Pedersen stofnaði og stýrði til ársins 2004, kom hún á nýrri flutningshefð sem byggir á sönghefð norskrar þjóðlagatónlistar. Pedersen stundaði nám sitt undir handleiðslu Terje Kvam og Eric Ericson.