Ole Kristian Løyning og Ronny Haugeland (myndskr.)

Ole Kristian Løyning og Ronny Haugeland
Photographer
norden.org
Ole Kristian Løyning og Ronny Haugeland (myndskr.): Min venn, Piraten. Barnabók/unglingabók, Vigmostad & Bjørke, 2020. Tilnefnd til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

André missir foreldra sína í bílslysi og slasast alvarlega sjálfur. Eini ættingi hans er Ben, frændi pabba hans, sem kallaður er Sjóræninginn. André flytur inn til þessa góðglaða sjómanns og þeir byggja sér sameiginlega tilveru. Það tekst þeim þrátt fyrir að Sjóræninginn eigi erfitt með samskipti við skólann og önnur yfirvöld. Dag einn verður Sjóræninginn veikur. Honum er sagt að hann eigi skammt eftir ólifað. André og Sjóræninginn ákveða að sigla á bátnum Nemo til Trinidad og hitta þar gamlan vin Sjóræningjans, Bátsmanninn.

Með gneistandi málbeitingu, kjarngóðum myndlíkingum og spaugsömu sjónarhorni á tilveruna lýsir Løyning sambandi þeirra André og Sjóræningjans og ævintýraferð þeirra yfir hafið.

Myndskreytingar Ronny Haugeland hæfa textanum vel. Þær eru grófar, naífar og minna á skissur, bæði hvað stíl og sjónarhorn snertir. Þetta á sinn þátt í að lýsa sýn André á tilveruna; hans innra sjónarhorni. Kímni og hugarflug koma að góðum notum til að takast á við nýja tilveru.

Min venn, Piraten („Vinur minn sjóræninginn“, hefur ekki komið út á íslensku) gefur sig út fyrir að vera nokkurs konar skrumsaga en fjallar í rauninni um sorgina, um það að takast á við hana og halda lífinu áfram. Hún er hressilega tilgerðarlaus að bæði formi og innihaldi og full af frásagnargleði.

Ole Kristian Løyning (f. 1982) starfar sem kennari og hefur áður gefið út tvær barnabækur. Min venn, Piraten hefur hlotið mikið lof og verið tilnefnd til bókmenntaverðlauna norskra gagnrýnenda.