Norræn starfsmannaskipti (NORUT)

Starfsmannaskipti gefa ríkisstarfsmönnum kost á að kynna sér stjórnsýslu annars staðar á Norðurlöndum en í heimalandinu. Úthlutun styrkja til starfsmannaskipta, greiðslur og greinargerð eftir á fer fram í hverju landi fyrir sig. Umsækjendur skulu því snúa sér til tengiliða í heimalandi sínu.

Starfsmannaskipti gefa ríkisstarfsmönnum kost á að kynna sér stjórnsýslu annars staðar á Norðurlöndum en í heimalandinu. Úthlutun styrkja til starfsmannaskipta, greiðslur og greinargerð eftir á fer fram í hverju landi fyrir sig. Umsækjendur skulu því snúa sér til tengiliða í heimalandi sínu.

Hópur skipaður tengiliðum frá löndunum fimm, ásamt Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi, skiptir árlegu framlagi milli landanna og Álandseyja, Færeyja og Grænlands.

Tvö mikilvæg skilyrði eru að umsækjandi haldi launum sínum á tímabilinu og að hann/hún sæki sjálf/ur um starf annars staðar á Norðurlöndum.

Algengasta tímalengd starfsmannaskipta er 1-2 mánuðir en þau geta staðið allt upp í sex mánuði.

Á þessari vefsíðu er að finna upplýsingar um almennar reglur um starfsmannaskipti, hver afraksturinn getur orðið og reynslu þátttakenda og stjórnvalda af skiptunum. Á vefsíðunni eru einnig upplýsingar um hvaða stjórnvöld á Norðurlöndum veita nánari upplýsingar um reglur sem koma til viðbótar við almennar reglur í hverju landi fyrir sig.

Norrænt samstarf - þróun í löndunum - norrænn afrakstur

Norræna ráðherranefndin styrkir norræn starfsmannaskipti sem gefa starfsfólki hjá hinu opinbera kost á að kynna sér aðstæður í norrænum nágrannalöndum með því að starfa í skemmri eða lengri tíma hjá annarri norrænni stofnun.

Starfsmannaskiptin stuðla að þróun norræns samstarfs, opinberra stofnana á Norðurlöndum og þátttakendanna sjálfra en þau eru líka eðlilegt framhald af áhuga á Norðurlöndum sem kviknað hefur hjá skólanemum, í framhaldsnámi, í starfi stéttarfélaga og á síðari árum í starfi á vegum Nordjobb.

Í tæpa þrjá áratugi hafa norrænu starfsmannaskiptin miðlað hugmyndum og verið hvetjandi á þeim mörgu vinnustöðum sem tekið hafa þátt í þeim.

Norræna ráðherranefndi greiðir 18.000 danskar krónur í styrk fyrir hvern mánuð í starfsmannaskiptum. Að auki endurgreiðir ráðherranefndin kostnað við ferðir til og frá vinnustað.

Ef dvölin er sex mánuðir eða lengri er einnig hægt að fá greiddar ferðir fjölskyldu og flutning nauðsynlegrar búslóðar. Í slíkum tilvikum geta þátttakandi og fjölskylda hans einnig fengið ferðastyrk til heimsóknar á heimaslóðir.

Þátttakendum er skylt að skila skýrslu um reynslu sína til vinnustaðar síns í heimalandinu eigi síðar en þremur mánuðum eftir heimkomuna.

Hvers vegna norræn starfsmannaskipti?

Undanfarin ár hefur meðvitund aukist um að umbætur í opinberum rekstri sé ekki eingöngu hægt að byggja á eigin reynslu heldur sé að minnsta kosti jafnmikilvægt að nýta utanaðkomandi hugmyndir. Ef viðhalda á velferðinni og þróa hana áfram er nauðsynlegt að sækja til þess hugmyndir yfir landamæri.

 

Mikilvægi alþjóðlegrar reynslu verður stöðugt meira í vinnu við að endurskoða og bæta opinbera þjónustu.

Þess vegna hefur gildi starfsmannaskiptanna aukist. Þau veita starfsmanninum tækifæri til að fá innsýn á vettvangi í skylda starfsemi í öðrum norrænum löndum og tækifæri til þess að kynnast öðruvísi nálgun verkefna gegnum starf í umhverfi sem er frábrugðið því sem starfsmaðurinn þekkir að heiman.

Það sem er líkt og ólíkt á Norðurlöndum

Norðurlöndin gegna af ýmsum ástæðum mikilvægu hlutverki í miðlun reynslu á alþjóðavettvangi.

Öldum saman hefur þróast sameiginleg sýn á hlutverk samfélagsins á Norðurlöndum. Með sameiginlegri löggjöf, sameiginlegum sáttmálum og samningum hafa íbúar Norðurlanda nú í stórum dráttum sömu réttindi til þjónustu samfélagsins.

Leiðirnar sem farnar eru til þess að veita þessa þjónustu hafa hins vegar ekki alltaf verið þær sömu. Ýmis samanburður á kostnaði og gæðum sem átt hefur sér stað undanfarin ár benda til þess að talsverður munur sé á svipaðri starfsemi.

Þetta á meðal annars við um framlag starfsfólks miðað við árangur þjónustu, meiri eða minni starfmannakostnað og mun á öðrum kostnaði eða gæðum.

Norðurlönd og Evrópusamstarf

Með aðild að Evrópusambandinu (ESB) og Evrópska efnahagssvæðinu (EES) hafa tækifæri til samanburðarrannsókna milli landa aukist og sömuleiðis aðgengi að annars konar nálgun en hinni hefðbundnu norrænu nálgun.

Með þessum hætti fær norrænt samstarf nýtt og mikilvægt hlutverk í vinnunni við að aðlaga almennt evrópskt þróunarstarf að norrænum aðstæðum.

Norrænu starfsmannaskiptin geta með áhrifaríkum hætti stuðlað að því að þróa sameiginlega norræna sýn á tækifæri fyrir hugmyndir úr Evrópusamstarfinu á Norðurlöndum.

Með starfsmannaskiptunum verða til tækifæri fyrir hvert og eitt norrænu landanna til þess að taka þátt í vinnu að aðlögun reglna samstarfsins í hinum norrænu löndunum.

Þetta á vitanlega við um tilskipanir ESB og vinnuna við að innleiða þær í lög og reglur landanna.

Starfsmannaskiptin eru, ef þau eru nýtt eins og til er ætlast, ítarleg rannsókn á hugmyndum og reynslu sem er til umræðu í alþjóðlegu samstarfi í Evrópu, innan Norðurlandaráðs og í fjöldamörgum fag- og stéttarfélögum.

Kynnist Norðurlöndunum betur

Annar þáttur sem hefur áhrif á sjónarhorn á þörf fyrir aukið samstarf milli stjórnvalda á Norðurlöndum er opnun Norðurlanda fyrir annarri menningu gegnum fólksflutninga.

Margir innflytjendur leita til opinberra stofnana en hafa af augljósum ástæðum ekki sömu sýn á þjónustu þeirra eða tilfinningu gagnvart Norðurlöndum og þeim sameiginlegu hagsmunum sem einkenna norræna stjórnsýslu.

Norræn starfsmannaskipti geta miðlað þekkingu um Norðurlönd og norrænt samstarf milli norrænna stjórnvalda og stuðlað að því að þátttakendum finnst þeir vera meiri aðilar að norrænu samstarfi.

Viltu vita meira?

Nokkur munur er milli landanna á framkvæmd almennra reglna um starfsmannaskiptin.

Sú stofnun sem fer með samstarfið á hverjum stað ber ábyrgð á upplýsingum um starfsemina í viðkomandi landi.

Ef þig langar að vita meira skaltu snúa þér til þeirrar stofnunar sem fer með samskiptin eða vefsíðu hennar um starfsmannaskiptin, ef það á við.