Theatre of Voices

Theatre of Voices

Theatre of Voices

Photographer
Reinhard Wilting
Theatre of Voices er á meðal hinna 13 listamanna og hópa sem tilnefndir eru til tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2021.

Rökstuðningur:

Theatre of Voices (TOV) telst til bestu sönghópa heims og nýtur mikilla vinsælda um víða veröld. TOV-hópurinn er þekktur fyrir framúrskarandi listrænan og tæknilega góðan flutning sem nýtur sín í frumlegri efnisskrá, þar sem áhersla er lögð á fjölradda tónlist fyrri tíma jafnt sem samtímatónlist. Hópurinn var stofnaður af Paul Hillier árið 1990 og hefur flutt verk tónskálda á borð við Stockhausen, Berio, Pärt, Reich, Bent Sørensen og David Lang.  

Eftir 30 ára brautryðjendastarf er hópurinn enn að takast á við nýjar og ævintýralegar áskoranir og mynda ný og eftirtektarverð sambönd.

Á meðal hápunkta undanfarinna ára eru: 

  • Útkoma plötu Pelle Gudmundsen-Holmgreens, Green Ground, með tónlist sem hann samdi fyrir Kronos-kvartettinn og TOV.
  • Náið samstarf hópsins við Jóhann Jóhannsson, sem hefur markað varanleg spor í flutning og upptökur á verkum hans Drone Mass og Orphée (2016) og tónlist hans úr kvikmyndunum Arrival (2017) og Last and First Men (2017).
  • Þátttaka hópsins í frumflutningi á Only the Sound Remains, óperu eftir Kaiju Saariaho, í París, New York og Madríd (2018).
  • The North Atlantic Route (2019) þar sem frumflutt voru verk eftir m.a. Sunleif Rasmussen (Færeyjar), Arnannguaq Gerstrøm (Grænland) og Hildi Guðnadóttur/Jóhann Jóhannsson (Ísland).

Árið 2020 fagnaði TOV 30 ára afmæli sínu með stórtónleikum í Lundúnum. 2020 var einnig árið sem hópurinn kom fram í fyrsta sinn sem heilmyndir á þverlistrænu tónleikainnsetningunni Aria, á hátíðinni New Vision Arts í Hong Kong. 

Raddirnar fjórar í kjarnahóp TOV renna saman á aðdáunarverðan hátt og hlustandinn skynjar líkt og af eðlisávísun að þarna er á ferðinni stór og einstakur hljómur fjögurra mannsradda, sem eru stöðugt að finna og skora á hver aðra. Það sama má heyra í þeim tilvikum sem ein eða fleiri viðbótarraddir syngja með hópnum. Í þessum hljómi titra raddirnar saman og hver á móti annarri og skapa þannig einstaklega líkamlega og tilfinningalega tengingu við okkur áheyrendur, á hátt sem aðeins mannsröddin er fær um. 

Else Torp: sópran

Signe Asmussen: mezzósópran

Paul Bentley-Angell: tenór

Jakob Bloch Jespersen: bassabaritón

Paul Hillier: stjórnandi og listrænn stjórnandi