372. Steinunn Þóra Árnadóttir (Indlæg)

Information

Typ
Inlägg
Tal nummer
372
Speaker role
Nordisk Grønt Venstre
Datum

Oddný Harðardóttir, landi minn, fór yfir söguna af jafnlaunastaðlinum og vinnunni á Íslandi svo að ég ætla ekki að endurtaka það. Líkt og við studdum málið þegar það kom fram á Íslandi, þó í aðeins öðruvísi mynd væri, styð ég, og við í norræna græna vinstrinu, þessa framkomnu tillögu enda er það gríðarlega mikilvægt að fólk sem er að vinna sömu störf fái sömu laun óháð kyni. Þetta er því mikilvægt mál og við viljum vinna að því. Mér finnst einnig mikilvægt að segja og taka fram að þó svo að jöfnum launum fyrir sömu vinnu verði náð er björninn ekki þar með unninn og fullkomnu kynjajafnrétti — alls ekki í öllu samfélaginu og ekki heldur á vinnumarkaði — komið á með því. Við þurfum enn þá að takast á við það að vinnumarkaðurinn á öllum Norðurlöndunum er gríðarlega kynskiptur. Þessi aðgerð hefur ekkert að gera með kynferðislega áreitni eða ofbeldi á vinnustöðum en það eru allt mál sem við þurfum líka að hafa undir. En þetta er eitt af því sem er mikilvægt skref, þetta er skref sem við eigum að stíga hér á vettvangi Norðurlandaráðs. Þess vegna ætla ég og minn flokkahópur að styðja þetta mál.