Yfirlýsing um lýðheilsusamstarf á Norðurlöndum

27.04.16 | Yfirlýsing
Vísar til skýrslunnar „Framtíðarsamstarf Norðurlanda í heilbrigðismálum“ og tillögu hennar um aukið samstarf um aðgerðir til að bæta lýðheilsu.

Upplýsingar

Norrænu félags- og heilbrigðismálaráðherrarnir

Viðurkenna:

 • Mikilvægi þess að fylgja í samstarfi sínu heimsmarkmiðunum um sjálfbæra þróun, sem talin eru í Áætlun Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun til ársins 2030, einkum og sér í lagi þriðja markmiði: Stuðla að heilbrigðu líferni og vellíðan fyrir alla á öllum aldri.
 •  Mikilvægi þeirra tilmæla sem lögð hafa verið fram í kjölfar alþjóðlegra ráðstefna um heilbrigðismál og eftirfarandi yfirlýsinga: Ottawa-yfirlýsingarinnar (1986), Helsinkiyfirlýsingarinnar (2013), hinnar norrænu Þrándheimsyfirlýsingar (2014) auk stefnuramma Evrópuskrifstofu WHO í heilbrigðismálum, Health 2020.
 • Að heilsuójöfnuður er umtalsverður á Norðurlöndum, þrátt fyrir að lýðheilsa þar sé afar góð í alþjóðlegum samanburði.
 • Þörfina fyrir eflt norrænt samstarf til að stuðla að bættri lýðheilsu og draga úr heilsuójöfnuði, eins og lýst er í skýrslunni „Framtíðarsamstarf Norðurlanda í heilbrigðismálum“.
 • Að vel starfandi heilbrigðiskerfi gegnir lykilhlutverki í lýðheilsustarfi.
 • Að við meðferð málefna sem varða heilsu og vellíðan skal taka mið af jafnréttissjónarmiðum til að tryggja heilsu kvenna og karla, stúlkna og drengja á jöfnum forsendum.

Eru á einu máli um að efla norrænt samstarf um lýðheilsumál og samstarf um heilsujöfnuð með því að:

 • Koma á fót norrænum samstarfsvettvangi á sviði lýðheilsu.
 • Norrænu velferðarmiðstöðinni (NVC) verður falin umsýsla vettvangsins.
 • Þverfagleg sýn skal höfð að leiðarljósi fyrir vettvanginn, sem einnig er ætlað að eiga samstarf við norræna starfshópa, samstarfsnet, stofnanir og aðra aðila á sviði lýðheilsumála.

Eru á einu máli um að beita sér fyrir því á vettvangi norræns samstarfs að setja reynslumiðlun og sameiginleg þróunarverkefni um góðar fyrirbyggjandi og heilsueflandi aðgerðir í forgang

 •  Að greiða í því samstarfi fyrir þekkingarmiðlun og þróunarverkefnum sem stuðla að því að efla stefnumörkun og innleiðingu aðgerða fyrir góða lýðheilsu á grundvelli jöfnuðar.
 • Að í byrjun samstarfsins verði sjónum einkum beint að (i) Ójöfnuði í heilsufarsmálum, (ii) Áfengi, fíkniefnum og tóbaki og (iii) Geðheilsu.