Barnabætur á Íslandi

Barnabætur á Íslandi
Hér er að finna upplýsingar um íslenskar barnabætur.

Barnabætur eru til þess ætlaðar að létta undir með barnafólki og jafna stöðu þess. Ákveðin upphæð er greidd til foreldra með hverju barni fram að 18 ára aldri. Upphæð barnabóta fer eftir tekjum foreldra, hjúskaparstöðu og barnafjölda. Á Íslandi annast Ríkisskattstjóri útreikning barnabóta.

Barnabætur

Greiðslur á barnabótum hefjast ári eftir að barn fæðist eða flytur til landsins og eru greiddar fram að 18 ára aldri barns. Bæturnar eru greiddar út fjórum sinnum á ári. Fyrirframgreiðsla er greidd 1. febrúar og 1. maí. Við uppgjör skattaframtals er fyrirframgreiðslan dregin frá barnabótum eins og þær eru ákvarðaðar í álagningu og eftirstöðvarnar greiddar út 1. júní og 1. október.

Barnabætur eru tekjutengdar og ákvarðaðar samkvæmt skattaframtali. Tekjur erlendis hafa áhrif á útreikning barnabóta á sama hátt og tekjur hér á landi. Barnabætur teljast ekki til tekna og eru ekki skattskyldar. Það þarf ekki að sækja um barnabætur.

Til viðbótar barnabótum, eru sérstakar tekjutengdar barnabætur greiddar með börnum yngri en sjö ára á tekjuárinu.

Hverjir eiga rétt á barnabótum? 

Allir geta átt rétt á barnabótum hvort sem þeir eru í vinnu, sjálfstætt starfandi eða nemar.

Báðir foreldar búa og vinna á Íslandi

Barnabætur skiptast jafnt á milli hjóna. Það sama á við ef foreldrar barns eru í skráðri sambúð ef þau uppfylla skilyrði fyrir samsköttun í lok tekjuársins.

Báðir foreldar búa í öðru norrænu ríki og vinna á Íslandi

Ef báðir foreldrar starfa á Íslandi, greiðir Ísland bæturnar svo framalega sem báðir foreldrarnir beri ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi.

Fjölskyldan býr á Íslandi en annað foreldrið vinnur í öðru norrænu ríki

Ef foreldrar eru búsettir með barni sínu á Íslandi og annað foreldrið starfar hér á landi en hitt foreldrið starfar í öðru norrænu ríki, er meginreglan sú að barnabæturnar greiðast á Íslandi, landinu þar sem barnið á heima. Sé upphæð bóta í hinu landinu hærri en á Íslandi á tryggingastofnun þess lands að greiða út viðbótarframlag sem nemur mismuninum. Hafa skal samband við almannatryggingar í því landi sem barnið á heima til að fá nánari upplýsingar um hvernig sótt er um viðbótarframlag við bæturnar.

Fjölskyldan býr í öðru norrænu ríki og annað foreldrið vinnur á Íslandi

Ef fjölskyldan býr í öðru norrænu ríki og annað foreldrið sækir vinnu til Íslands, er meginreglan sú að búsetulandið á að greiða barnabæturnar. Undantekning hér væri að ef foreldrið sem býr í hinu norræna ríkinu vinnur ekki þá greiðir Ísland barnabæturnar.

Ef foreldrarnir eru félagslega tryggðir í tveimur mismunandi löndum.

Réttur til barnabóta getur verið fyrir hendi en sækja þarf sérstaklega um það. Þegar um er að ræða bætur sem greiðast af fleiru en einu landi er forgangsröðunin eftirfarandi: Fyrst kemur réttur á grundvelli starfs launþega eða sjálfstætt starfandi einstaklings, því næst réttur á grundvelli greiðslu lífeyris og í síðasta lagi réttur sem fenginn er á grundvelli búsetu.

Þarf barnið að vera búsett í því landi sem borgar barnabætur?

Hægt er að ákvarða barnabætur á Íslandi þrátt fyrir að barn sé ekki búsett þar. Skilyrði fyrir því er að barnið sé á framfæri einstaklings sem er ríkisborgari innan EEB, sé starfandi á Íslandi og beri þar fulla skattskyldu.

Einstætt foreldri.

Einstætt foreldri fær greiddar óskiptar barnabætur með barni sem það hefur á sínu framfæri.

Ef foreldrar skilja

Ef hjón skilja fyrir árslok þá reiknast barnabætur eins og hjá einstæðu foreldri samkvæmt framtali hjónanna.

Er hægt að fá greiddar íslenskar barnabætur eftir flutning til útlanda?

Þeir foreldrar sem flytja með börn sín til annars norræns lands geta átt rétt á barnabótum ári eftir flutninginn og þá hlutfallslega miðað við þann tíma sem þau voru búsett á Íslandi á tekjuárinu. Þar sem barnabætur eru greiddar út jafnóðum á hinum Norðurlöndunum geta foreldrarnir verið að fá bætur frá tveimur löndum samtímis þó verið sé að greiða fyrir ólík tímabil. Þetta leiðir til þess að foreldrar sem flytja til Íslands frá öðru norrænu landi, geta verið án barnabóta frá flutningsdegi til landsins og þar til í álagningu árið eftir er útborgun íslenskra barnabóta hefst.

Námsmenn sem dvelja erlendis við nám geta átt rétt á barnabótum ef umsókn þeirra um skattalega heimilisfesti er samþykkt. Barnabætur eru ákvarðaðar samkvæmt skattframtali og sé um hjón að ræða þurfa í öllum tilvikum að liggja fyrir upplýsingar um tekjur beggja. Frá barnabótum dragast barnabætur eða hliðstæðar greiðslur erlendis. Ekki er hægt að reikna fyrirframgreiðslu fyrr en framtal liggur fyrir ásamt upplýsingum um bætur erlendis.

Við hvern á að hafa samband ef spurningar vakna?

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Ríkisskattstjóra. Einnig er hægt að fá upplýsingar símleiðis hjá þjónusturáðgjafa í síma (+354) 442 1000. 

Hafa samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna