Fjárhagsaðstoð á Íslandi

Grafer og penge
Hér getur þú lesið um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga á Íslandi.

Hvert sveitarfélag setur sér reglur um fjárhagsaðstoð sem byggja á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Allir sem eru með lögheimili í sveitarfélaginu geta sótt um fjárhagsaðstoð.  Umsókn um fjárhagsaðstoð skal leggja fram í lögheimilissveitarfélagi. Þurfi fólk á skyndilegri aðstoð að halda í dvalarsveitarfélagi er skylt að veita tímabundna aðstoð. Skal um það haft samráð við lögheimilissveitarfélag og aðstoð metin og veitt í samræmi við reglur þess. Lögheimilissveitarfélag endurgreiðir dvalarsveitarfélagi kostnaðinn, sbr. lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Áður en sótt er um fjárhagsaðstoð til sveitarfélagsins þarf að vera búið að kanna rétt til aðstoðar í öðrum kerfum eins og t.d. atvinnuleysisbætur, sjúkrasjóðum, lífeyrissjóðum og hjá Tryggingastofnun. Ef umsækjandi á ekki rétt á aðstoð í öðrum kerfum getur hann sótt um fjárhagsaðstoð til sveitarfélagsins. Fjárhagsaðstoð skiptist í framfærslustyrk og heimildargreiðslur. Framfærsla tekur mið af grunnfjárhæð sem er ákvörðuð af hverju sveitarfélagi og ef tekjur umsækjanda eru undir þeirri fjárhæð á viðkomandi rétt á fjárhagsaðstoð. Einnig getur umsækjandi sótt um heilmildargreiðslur vegna barna, tannlækninga, stofnun heimilis, sérfræðiaðstoð og fleira.

Hver eru skilyrði fyrir fjárhagslegri aðstoð?

Viðkomandi þarf að hafa lögheimili í sveitarfélagi og ekki eiga rétt á félagslegri aðstoð í öðrum kerfum. Fjárhagsaðstoð skal alla jafna vera greidd einn mánuð í senn og skulu ákvarðanir um aðstoð að jafnaði ekki ná yfir lengra tímabil en þrjá mánuði. Þegar umsækjandi fær jafnframt bætur frá Tryggingastofnun ríkisins og ljóst er að aðstæður hans munu ekki breytast, er heimilt að samþykkja aðstoð í sex mánuði í senn. Aðstæður þeirra sem fengið hafa fjárhagsaðstoð lengur en þrjá mánuði skulu kannaðar sérstaklega, félagsleg ráðgjöf veitt í samræmi við lög um félagsþjónustu sveitarfélaga og skal viðkomandi bent á að leita sér aðstoðar umboðsmanns skuldara. Í undantekningartilvikum er heimilt að veita fjárhagsaðstoð vikulega vegna sérstakra aðstæðna.

Hver er upphæð fjárhagslegrar aðstoðar?

Grunnfjárhæð er mismunandi eftir sveitarfélögum. Hér er hægt að sjá grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar í Reykjavík, en hún er mismunandi eftir því hvort fjárhagsaðstoðin sé veitt til einstaklings eða hjóna/fólks í sambúð.

Hvernig á að sækja um félagslega aðstoð?

Þú leggur inn umsókn til félagsþjónustunnar í því sveitarfélagi sem þú ert með lögheimili.

Áttu rétt á félagslegri aðstoð strax eftir að flutt er til landsins?

Nei, þú þarft að sækja formlega um fjárhagsaðstoð og vera búinn að kanna rétt þinn í öðrum kerfum áður en þú sækir um fjárhagsaðstoð til sveitarfélagsins.

Er hægt að fá greiðslur þegar þú flytur erlendis?

Nei, skilyrði er að vera með lögheimili á Íslandi til að geta sótt um fjárhagsaðstoð til sveitarfélaga.

Við hvern er best að hafa samband ef spurningar vakna?

Nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga. Einnig er hægt að fá upplýsingar símleiðis hjá þjónusturáðgjafa í síma (+354) 5154900.

Hafa samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna