Framfærslustyrkur í Finnlandi

Toimeentulotuki Suomessa
Hér er sagt frá framfærslustyrk í Finnlandi og úthlutun hans til útlendinga sem búsettir eru í Finnlandi.

Framfærslustyrkurinn er veittur af finnskum félagsmálayfirvöldum. Um er að ræða fjárstyrk sem álitinn er lokaúrræði. Þú þarft því fyrst að reyna að tryggja framfærslu þína með öðru móti, svo sem með launatekjum, sparnaði, atvinnuleysisbótum, sjúkradagpeningum eða öðru slíku. 

Þú kannt að eiga rétt á framfærslustyrk til að dekka grunnþarfir ef þú dvelur í Finnlandi og þær tekjur og eignir sem þú eða fjölskylda þín hafið til ráðstöfunar nægja ekki fyrir daglegum nauðsynjum.

Hvað felst í framfærslustyrk?

Framfærslustyrkurinn er þríþættur:

  • grunnframfærsla
  • uppbótarframfærsla
  • fyrirbyggjandi framfærsla.

Grunnframfærslustyrkur er veittur af finnsku almannatryggingastofnuninni (Kansaneläkelaitos eða Kela). Félagsmálayfirvöld á viðkomandi svæði hafa umsjón með uppbótarframfærslu og fyrirbyggjandi framfærslu.

Átt þú rétt á framfærslustyrk?

Úrskurðað er um rétt til grunnframfærslustyrks út frá eðli dvalar í Finnlandi og þörf umsækjanda.

Grunnframfærsla er í boði fyrir einstakling eða fjölskyldu sem dvelur í Finnlandi, ef tekjur og eignir nægja ekki fyrir daglegum nauðsynjum. Finnska almannatryggingastofnunin (Kela) leggur mat á eðli dvalar í hverju tilviki fyrir sig. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Kela.

Ef dvölin telst tímabundin áttu að minnsta kosti rétt á nauðsynlegum fjárhagsstuðningi fyrir mat og nauðsynlegum, lyfseðilsskyldum lyfjum. Sé dvöl þín varanleg kemur til greina að veita styrk vegna annarra útgjalda, þegar ákvörðun hefur verið tekin um rétt þinn til stuðnings.

Auk grunnframfærslu kannt þú að eiga rétt á uppbótarstyrk og fyrirbyggjandi styrk sem félagsmálayfirvöld á þínu svæði hafa umsjón með. Þeir styrkir eru ekki háðir rétti þínum til grunnframfærslustyrks, heldur er þá fyrst og fremst litið til raunverulegrar fjárhagsstöðu þinnar. Uppbótarframfærslustyrkur er hugsaður fyrir sérstök tilvik eða aðstæður og fyrirbyggjandi styrkur á að hjálpa fólki að standa á eigin fótum og koma í veg fyrir að það verði utanveltu í samfélaginu. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði finnska félags- og heilbrigðismálaráðuneytisins.

Hvað er hægt að fá háan framfærslustyrk?

Grunnframfærslustyrkur er fjárstyrkur sem veittur er á grundvelli þarfar. Almannatryggingastofnunin Kela hefur umsjón með styrknum. Réttur til grunnframfærslustyrks er metinn mánaðarlega með útreikningum sem grundvallast á finnskum lögum.

Útreikningarnir byggja á tekjum og eignum, auk viðmiða um hæfileg neysluútgjöld sem skilgreind eru í lögum. Samanlagðar nettótekjur og -eignir þínar og annarra fjölskyldumeðlima hafa áhrif á upphæð grunnframfærslustyrks. Með nettótekjum er átt við tekjur eftir skatt.

Þau útgjöld sem litið er til vegna grunnframfærslustyrks samanstanda af grundvallarhlutdeild og öðrum grundvallarútgjöldum. Grundvallarhlutdeildin er föst upphæð sem ætluð er fyrir nauðsynleg útgjöld daglegs lífs, svo sem vegna kaupa á mat og fatnaði. Til annarra grundvallarútgjalda teljast meðal annars, innan skynsemismarka, húsnæðiskostnaður og útgjöld vegna opinberrar heilbrigðisþjónustu sem ekki falla undir grundvallarhlutdeild, svo sem komugjald á heilsugæslu og sjálfsábyrgðarhlutdeild í niðurgreiddum lyfjum. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Kela.

Félagsmálayfirvöld á viðkomandi svæði geta auk þess veitt uppbótarframfærslustyrk eða fyrirbyggjandi framfærslustyrk. Hægt er að veita uppbótarframfærslustyrk vegna útgjalda sem stafa af sérþörfum þínum eða fjölskyldumeðlima þinna, eða kringumstæðum sem metnar eru nauðsynlegar til að tryggja framfærslu þína eða efla getu þína til að standa á eigin fótum. Fyrirbyggjandi framfærslustyrkur er til dæmis veittur til þess að tryggja húsnæði þitt eða til að draga úr erfiðleikum sem stafa af mikilli skuldsetningu eða skyndilega versnandi fjárhagsstöðu. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Kela undir yfirskriftinni „Samantekt á framfærslustyrk“ (e. „Overview of social assistance)“.

Hvernig er sótt um framfærslustyrk?

Sótt eru grunnframfærslustyrk hjá Kela, sem tekur ákvörðun varðandi rétt umsækjenda til styrks. Þú getur skilað inn umsókn og viðhengjum annaðhvort rafrænt á OmaKela eða  prentað út og sent í pósti. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Kela. 

Ef þú greinir frá útgjöldum í umsókn þinni sem falla ekki undir grundvallarhlutdeild eða önnur grundvallarútgjöld skaltu biðja Kela um að senda umsókn vegna þeirra útgjalda áfram til félagsmálayfirvalda á þínu svæði. Þú getur líka sótt um uppbótarframfærslustyrk og fyrirbyggjandi framfærslustyrk beint hjá félagsmálayfirvöldum á þínu svæði.

Er hægt að fá styrkinn um leið og flutt er til Finnlands?

Meginreglan er sú að norrænir borgarar eigi rétt á grunnframfærslustyrk samkvæmt finnskum lögum til jafns við aðra sem dvelja í landinu til lengri tíma, og fái þann rétt strax við komuna til Finnlands. Þiggir þú bætur frá brottfararlandinu eru þær teknar til greina þegar réttur þinn til styrks er metinn. 

Fólk sem dvelur í Finnlandi á þó ávallt rétt á í það minnsta nauðsynlegum hluta grunnframfærslustyrks , sem sagt styrk vegna nauðsynlegra matar- og lyfjakaupa, geti það ekki staðið straum af þeim útgjöldum með öðru móti.

Er styrkurinn greiddur til annarra landa?

Réttur til framfærslustyrks einskorðast við útgjöld sem tengjast dvöl umsækjenda í Finnlandi.

Nánari upplýsingar

Hvert skal beina spurningum?

  • Finnska almannatryggingastofnunin (Kela)

Upplýsingar um uppbótarframfærslu og fyrirbyggjandi framfærslu veitir félagsmálasvið þíns sveitarfélags.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna