Grunnskólar á Grænlandi

Foto: Barn, Nuuk centrum, Grönland
Ljósmyndari
Mats Bjerde
Hér er að finna upplýsingar um grænlenska grunnskólann.

Á Grænlandi er tíu ára fræðsluskylda. Þess vegna eiga öll börn á aldrinum 6–16 ára að fá kennslu í tíu ár. Grænlenski grunnskólinn er ókeypis fyrir öll börn sem eru búsett á landinu. Grunnskólanum lýkur með prófi og stöðumati sem veita aðgang að framhaldsnámi.

Fræðsluskylda

Á Grænlandi er ekki skólaskylda, heldur fræðsluskylda. Það er því á ábyrgð foreldra að tryggja að barnið hljóti fræðslu frá 1. ágúst það ár sem barnið verður sex ára. Börn eiga að fá  tíu  ár af fræðslu, en foreldrar ákveða sjálfir hvort fræðslan fer fram innan grunnskóla eða sem heimakennsla.

Grænland er stórt land og langt milli bæja og byggða. Í sumum tilfellum kunna fjölskyldur að búa svo langt frá næsta skóla – til dæmis ef foreldrarnir eru fjárhirðar – að þær velji í staðinn að ráða til sín heimakennara. Þrátt fyrir að kennslan fari fram innan heimilisins þarf sveitarstjórnin á viðkomandi stað að samþykkja það og hafa reglulegt eftirlit med heimakennslunni.

Grunnskólinn

Það eru ókeypis grunnskólar í öllum bæjum og byggðarlögum á Grænlandi, en ekki bjóða allir skólar upp á öll stig námsins (sjá kafla um byggðaskóla).

Grunnskólanum er skipt í þrjú stig:

  • Yngsta stig: Þriggja ára stig fyrir yngstu börnin, 1.–3. bekk
  • Miðstig: Fjögurra ára stig fyrir eldri börn, 4.–7. bekk
  • Elsta stig: Þriggja ára stig fyrir yngstu börnin, 1–3. bekk

Eftir bæði yngsta stig og miðstig fara öll börn í próf til að ganga úr skugga um að þau hafi lært það sem þau eiga að hafa lært, og til þess að kennarinn geti aðlagað kennsluna. Við lok elsta stigsins eru lokapróf og stöðumat. Að þeim loknum fær nemandinn útskriftarskírteini. Árangur og lokaeinkunnir nemandans geta skipt sköpum þegar sótt er um framhaldsnám eftir 10. bekk. 

Stöðumatið byggir á:

  • Vitnisburði og stöðueinkunnum
  • Sjálfsmati nemandans
  • Prófum í grænlensku, dönsku, ensku og stærðfræði
  • Kynningu á lokaverkefni

Einnig er hægt að klára 10. bekk í heimavistarskóla, annað hvort á Grænlandi eða í Danmörku. Í einstaka tilfellum geta nemendur útskrifast eftir  níu  ár,ef foreldrar sækja um þann kost. Það eru aðeins fáir nemendur sem gera það. Flestir nemendur á Grænlandi klára grunnskólann eftir 10. bekk.

Byggðaskólar

Í mörgum minni þorpum og byggðarlögum stendur grunnskólinn aðeins til boða upp að elsta stigi. Þess vegna  verða börnin að fara til stærri bæja til þess að klára menntun sína, oftast eftir 7. bekk.

Þau börn sem verða að flytja frá fjölskyldum sínum til þess að klára grunnskólann fá pláss á  nemendaheimili, sem tilheyrir þeim skóla sem nemandinn mun sækja. Á nemendaheimilinu er fullorðið fólk sem ber ábyrgð á því að annast börnin á meðan þau búa þar. Það er ókeypis að búa á nemendaheimilinu, og matur og nauðsynjar eru innifaldar.

Einkaskólar

Flestir grunnskólar á Grænlandi eru reknir af sveitarfélögum. Þó er einn einka- og foreldrarekinn  skóli í Nuuk.

Heimavistarskólar og fagskólar

Heimavistarskólar eru önnur leið fyrir nemendur á aldrinum 14–18 ára til að klára eitt eða fleiri af síðustu grunnskólaárunum. Þá búa ungmennin, borða og hljóta kennslu í skólanum. Það er ekki ókeypis að fara í heimavistarskóla.

Á Grænlandi eru heimavistarskólar í Maniitsoq og Qasigiannguit.

Heimavistarskólar í Danmörku og á Norðurlöndum

Mörg grænlensk ungmenni velja að fara til Danmerkur til þess að vera þar í eitt eða tvö ár í heimavistarskóla. Í þeim tilvikum geta foreldrar sótt um styrk til þess að greiða fyrir skóladvölina.

Meðan á dvölinni í Danmörku stendur eiga nemendur að hafa stuðningsfjölskyldur sem geta aðstoðað ungmennin á sama hátt og þeirra eigin fjölskylda myndi gera. Stuðningsfjölskyldan skuldbindur sig til að mæta fyrsta skóladaginn og á foreldrafundi, taka á móti unglingnum í fríum og við veikindi o.fl.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna