Húsnæðisbætur í Danmörku

Boligstøtte i Danmark
Hér geturðu lesið um réttinn til húsnæðisbóta í Danmörku.

Ef þú býrð í leiguhúsnæði með séreldhúsi áttu kannski rétt á húsnæðisbótum. Upphæð húsnæðisbóta ræðst af tekjum og eignum heimilisins, hversu mörg börn og fullorðnir búa í húsnæðinu, upphæð húsaleigunnar og stærð húsnæðisins. Ef þú býrð í búseturéttaríbúð eða eigin íbúð kann að vera að þú getir fengið húsnæðisbætur í form láns.

Húsnæðisbætur vegna leiguhúsnæðis

Ef þú býrð í leiguhúsnæði með séreldhúsi áttu kannski rétt á húsnæðisbótum.

Ef þið eruð fleiri sem leigið saman getur einungis eitt ykkar fengið húsnæðisbætur. Húsnæðisbætur eru greiddar þeim sem sendir inn umsóknina eða húsnæðisfélaginu sem dregur þá upphæðina frá húsaleigunni.

Ef þú býrð í framleiguhúsnæði gilda almennar reglur um húsnæðisbætur. Þú þarft þó að ganga úr skugga um að leigusalinn hafi tilkynnt flutning sinn til þjóðskrár því annars gætu tekjur hans haft áhrif á húsnæðisbæturnar.

Réttur til húsnæðisbóta og upphæð þeirra ræðst meðal annars af upphæð húsaleigunnar, tekjum heimilisins og eignum, stærð húsnæðisins og hversu margir eiga heima þar.

Sótt er um húsnæðisbætur á vefnum borger.dk.

Mundu að tilkynna Udbetaling Danmark ef breytingar verða á högum þínum. Til dæmis ef breytingar verða á tekjum þínum, húsaleigu eða eignastöðu eða ef einhver flytur inn eða út af heimilinu.

Þá eru sérstakar reglur sem gætu veitt þér rétt til hærri húsnæðisbóta en ella ef þú býrð í félagslegu húsnæði, nýtur sólarhringsumönnunar eða býrð við mikla hreyfihömlun. Sjá nánar undir „Særligt for dig“ á vef borger.dk um húsnæðisbætur.

Húsnæðisbætur fyrir lífeyrisþega sem búa í búseturéttarhúsnæði eða eigin húsnæði

Ef þú ert örorku- eða ellilífeyrisþegi, býrð við mikla hreyfihömlun eða færð notendastýrða persónulega aðstoð geturðu sótt um húsnæðisbætur í formi láns til kaupa á búseturéttarhúsnæði eða eigin húsnæði. Sama á við ef þú færð sambærilegan lífeyri erlendis frá samkvæmt reglum EES-samningsins um almannatryggingar.

Nánari upplýsingar um lán og reglurnar eru á vef borger.dk um húsnæðisbætur, undir „Særligt for dig“.

Lán til innborgunar

Ef þú flytur í almennt leiguhúsnæði sem er byggt og tekið í notkun eftir 1. apríl 1964 geturðu sótt um lán hjá sveitarfélaginu til innborgunar. Hægt er að veita lán til innborgunar á íbúðum og einstaklingsherbergjum en þú getur ekki sótt um lán ef þú flytur í almennt leiguhúsnæði fyrir ungmenni án séreldunaraðstöðu. Nánari upplýsingar á borger.dk.

Nánari upplýsingar

Samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna