Leikskólar og dagforeldrar á Íslandi

Leikskólar og dagforeldrar á Íslandi
Leikskólar eru fyrsta skólastigið og ráðlagt er að kynna sér vel dagvistunarmál þegar flytja á til Íslands. Hér má finna upplýsingar um dagvistunarmöguleika fyrir börn, meðal annars leikskóla og dagforeldra.

Leikskólar

Leikskólinn er fyrsta skólastigið og er hann ætlaður börnum undir skólaskyldualdri, það er undir sex ára aldri. Hann er ætlaður öllum börnum, óháð andlegu og líkamlegu atgervi, menningu eða trú.

Leikskólar eru flestir reknir af sveitarfélögum en þó einnig af öðrum aðilum sem viðurkenndir eru af viðkomandi sveitarfélagi.

Mennta- og menningarmálaráðuneyti setur leikskólum aðalnámskrá sem er endurskoðuð reglulega. Í henni koma fram helstu markmið leikskólastarfs og uppeldis- og menntunarhlutverk leikskóla.  Sveitarfélög bera hins vegar ábyrgð á starfsemi leikskóla og kosta rekstur þeirra.

Í flestum sveitarfélögum er mögulegt að sækja um leikskólavist fyrir barn frá sex mánaða aldri en aðeins í undantekningartilfellum fá börn leikskólapláss fyrir átján mánaða aldur. Algengt er að börn dvelji hjá dagmæðrum þar til leikskólapláss fæst eða á sérstökum ungbarnaleikskólum þótt aðeins séu reknir fáir slíkir.

Almennt er gerð krafa um að börn séu skráð til heimilis í sveitarfélaginu þar sem leikskóli er en undantekningar eru á því.

Flestir leikskólar miða við að börn taki fjögurra vikna frí yfir sumartímabilið og margir leikskólar loka.

Umsókn um leikskóladvöl

Foreldrar sækja um leikskóladvöl í því sveitarfélagi sem barnið er með lögheimili. Hjá flestum sveitarfélögum gilda aldurstakmörk við innröðun á leikskóla. 

 

Leikskólagjöld

Í flestum sveitarfélögum þurfa foreldrar að greiða ákveðið gjald fyrir leikskóladvöl barna sinna. Leikskólagjald er innheimt 11 mánuði á ári en gert er ráð fyrir að barn taki fjögurra vikna samfellt sumarleyfi. Upplýsingar um gjaldskrá leikskóla er að finna á heimasíðum sveitarfélaga.

Einstæðir foreldrar og námsmenn fá ákveðinn afslátt af leikskólagjaldi. Þá er einnig veittur systkinaafsláttur. Upplýsingar um afslátt fyrir ákveðna hópa er að finna á heimasíðum sveitarfélaga.

Þegar barn byrjar í leikskóla er gerður dvalarsamningur milli skólans og foreldris og er gagnkvæmur uppsagnarfrestur einn mánuður.

Dagforeldrar

Nefndir á vegum sveitarstjórna veita leyfi til daggæslu barna í heimahúsum, en dagforeldrar eru sjálfstætt starfandi og því ber að hafa samband beint við dagforeldrið til að sækja um dagvistunarpláss. Daggæslugjöld eru niðurgreidd af flestum sveitarfélögum. Niðurgreiðslur geta hafist að fæðingarorlofi  loknu og miðast við 9 mánaða aldur barna hjóna eða sambúðarfólks.

Í mörgum sveitarfélögum er veittur systkinaafsláttur.

Í sumum sveitarfélögum eru veittar svokallaðar heimagreiðslur eða umönnunargreiðslur, ætlaðar foreldrum sem nýta ekki dagvistunartilboð fyrir börn undir sex ára aldri.

Á heimasíðum sveitarfélaga má finna lista yfir þá dagforeldra sem eru starfandi á hverjum stað. 

Við hvern á að hafa samband ef spurningar vakna?

Best er að leita til skrifstofu þess sveitarfélags sem viðkomandi er með lögheimili í eða hyggst flytja til. 

Hafa samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna