Meðlag á Íslandi

Meðlag á Íslandi
Hér er að finna upplýsingar um meðlag og reglur sem eiga við um meðlagsgreiðendur sem eiga heima í öðru landi.

Meðlag 

Meðlagsgreiðslur koma frá því foreldri eða foreldrum sem barnið hefur ekki lögheimili hjá. Meðlagið er hugsað til framfærslu og tilheyrir barninu og á að nota í þágu þess. Lögheimilisforeldri barnsins tekur við meðlagsgreiðslum og ráðstafar þeim. Foreldrum ber að framfæra barni sínu og greiða með því meðlag til 18 ára aldurs.

Foreldrar semja saman um meðlag þegar slitnar upp úr samvistum. Samningar um meðlag eru ekki gildir nema þeir séu staðfestir af sýslumanni. Ef ágreiningur um meðlagsgreiðslur kemur upp skal leita til sýslumanns og fæst þá úrskurður þar eða fyrir dómstólum.

Tryggingastofnun greiðir einfalt meðlag með barni að ósk foreldris sem býr hér á landi eftir að meðlagsákvörðun liggur fyrir.

Lágmarksmeðlag er upphæð sem er ákveðin af Alþingi með lagasetningu ár hvert. Foreldri getur farið fram á hærra meðlag ef hinn aðilinn hefur fjárhagslega getu til að greiða meira. Einnig getur foreldri farið fram á hærra meðlag á ákveðnum tímapunktum í lífi barnsins þegar útgjöld aukast, s.s. við fermingu eða upphaf skólagöngu.

Annað foreldrið er búsett á Íslandi og hitt foreldrið sem á að greiða meðlagið er búsett í öðru norrænu ríki

Búseta meðlagsgreiðenda skiptir ekki máli varðandi skyldu til greiðslu meðlags til Innheimtustofnunar sveitarfélaga. Samkvæmt Norðurlandasamningi um gagnkvæma innheimtu meðlaga getur Innheimtustofnun óskað eftir því að meðlagsskuld sé innheimt á hinum Norðurlöndunum. Í því felst meðal annars skráning á vanskilaskrá í heimalandinu ásamt hefðbundnum innheimtuaðgerðum.

Foreldri er búsett í öðru norrænu ríki og foreldrið sem á að greiða meðlagið er búsett á Íslandi

Flytji meðlagsmóttakandi af landi brott falla greiðslur Tryggingastofnunar niður og viðkomandi verður þá að athuga með rétt sinn í búseturíki. Meðlagsskylda meðlagsgreiðanda breytist ekki í slíkum tilvikum. 

Meðlagsmóttakandi sækir um meðlag við komuna til annars norræns ríkis, innheimtustofnun þess ríkis sendir kröfu um meðlag til þess ríkis þar sem greiðandi býr.

 

Meðlagsgreiðandi á í erfiðleikum með að borga meðlagið

Komi til þess að meðlagsgreiðandi telji sig ekki geta staðið í skilum með meðlagsgreiðslur sínar, verður hann að snúa sér til Innheimtustofnunar sveitarfélaga og semja um vanskilin til að koma í veg fyrir að lögfræðiinnheimta fari af stað, en slíkt hefur kostnað og óþægindi í för með sér fyrir meðlagsgreiðendur.

Hve lengi þarf að greiða meðlag?

Meginreglan er sú að framfærsluskyldu foreldris gagnvart barni lýkur þegar það verður 18 ára. Samkvæmt 62. gr. barnalaga er þó heimilt að ákveða framlag til menntunar eða starfsþjálfunar ungmennis þar til það nær 20 ára aldri. Það er ungmennið sjálft sem setur fram ósk um slíkt framlag og hefur heimild til að ráðstafa fjármununum.

Sótt er um meðlagsgreiðslur og menntunarframlag rafrænt á mínar síður hjá Tryggingastofnun Ríkisins.

Við hvern á að hafa samband ef spurningar vakna?

Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Tryggingastofnunnar og hjá Sýslumanni. 

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna