Námsstyrkur á Grænlandi

Young people in Nuuk
Ljósmyndari
Mads Schmidt Rasmussen / norden.org
Hér er fjallað um námsstyrk á Grænlandi og um leiðir til að finna frekari upplýsingar.

Til að geta fengið námsstyrk á Grænlandi þarf að uppfylla fjölda skilyrða. Þú þarft að:

  • Vera danskur ríkisborgari
  • Stunda nám við viðurkennda námsleið
  • Hafa fasta búsetu á Grænlandi

Þú mátt ekki þiggja aðrar opinberar bætur, styrki eða námsstyrki á meðan þú þiggur námsstyrk frá ríkinu.

Námsfólk í Grænlandi nýtur ekki afsláttarkjara í almenningssamgöngukerfinu. Hins vegar átt þú möguleika á að sækja um ókeypis ferðir og styrki vegna vöruflutninga. Þú getur lesið meira um þá möguleika sem þér bjóðast á vefsvæði borgaraþjónustunnar Sullissivik.

Menntaskólanám – GUX

Stundir þú menntaskólanám og uppfyllir tilskildar kröfur getur þú fengið námsstyrk. Styrkurinn er greiddur út mánaðarlega og upphæðin ræðst af því hvort þú ert yngri eða eldri en 18 ára.

Ef þú ert undir átján ára aldri og býrð á stúdentagarði færðu þar frítt fæði og húsnæði. Búir þú á stúdentagarði þar sem íbúar fá ekki máltíðir áttu í staðinn rétt á mánaðarlegum matarstyrk.

Iðnnám – EUD

Sem nemandi við iðnskóla færðu yfirleitt greidd lærlingslaun frá vinnustaðnum þar sem þú ert í starfsnámi. Þú getur ekki þegið námsstyrk um leið og starfsnemalaun.

Kveðið er á um launakjör starfsnema í samningum sem gerðir eru í samstarfi fyrirtækja og stéttarfélaga. Að auki veitir Sjálfsstjórnin styrk til að fjármagna starfsnemastöður.

Nám á háskólastigi

Sem nemandi við menntastofnun á háskólastigi getur þú fengið námsstyrk ef þú uppfyllir tilskildar kröfur.

Námssstyrkur í námi á háskólastigi er greiddur út samkvæmt klippikortskerfi þar sem hver nemandi fær ákveðinn fjölda klippireita. Hver nemandi hefur 82 klippireiti til umráða, sem jafngildir námsstyrk til 82ja mánaða.

Auk námsstyrksins er bókastyrkur greiddur út sjálfkrafa við upphaf hverrar annar.

Námslán

Stundir þú nám á háskólastigi á Grænlandi getur þú sótt um námslán frá Sjálfsstjórninni til viðbótar við námsstyrkinn. Tvenns konar lán eru í boði:

  • Annarlán, sem hægt er að fá á hálfs árs fresti þegar ný önn er að hefjast
  • Eingreiðslulán, sem hægt er að fá einu sinni meðan á náminu stendur.

Barnastyrkur námsmanna

Sért þú í námi og með eitt eða fleiri börn undir 18 ára á framfæri getur þú sótt um aukastyrk til að sjá fyrir barni þínu eða börnum meðan á náminu stendur. Barnastyrkurinn er greiddur mánaðarlega ásamt námsstyrknum.

Til að fá barnastyrk þarft þú að hafa framfærsluskyldu gagnvart barni þínu eða fósturbarni, auk þess að vera virkur námsmaður á námsstyrk. Veljir þú að þiggja ekki námsstyrk geturðu heldur ekki fengið barnastyrkinn.

Hægt er að sækja um barnastyrk námsmanna á vef Sullissivik.

Ef þú ert norrænn ríkisborgari og vilt stunda nám á Grænlandi

Ef þú ert norrænn ríkisborgari eða uppfyllir ekki skilyrðin fyrir námsstyrk af öðrum ástæðum, getur þú sótt um undanþágu. Slík undanþága getur til dæmis fengist ef þú getur sýnt fram á að þú hafir sérstaka tengingu við Grænland.

Ekki er gerð krafa um að þú hafir unnið á Grænlandi til að geta fengið námsstyrk.

Sjóðir og styrkir

Námsmenn geta sótt um styrki hjá ýmsum sjóðum til ferðalaga, bókakaupa o.fl.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna