Ökuskírteini í Svíþjóð

Kørekort i Sverige
Hér eru gefnar upplýsingar um hvaða ökuskírteini eru gild í Svíþjóð, hvernig hægt er að fá og endurnýja ökuskírteini í Svíþjóð og hvernig erlendu ökuskírteini er skipt út fyrir sænskt.

Til þess að mega aka bíl í Svíþjóð þarftu að vera orðin/n 18 ára og vera með gilt ökuskírteini.

Hvaða tegundir ökuskírteina eru til í Svíþjóð?

Umferðarstofa (Transportstyrelsen) gefur út ökuskírteini í Svíþjóð. Í Svíþjóð gilda alþjóðlegir staðlar um ökuskírteinisflokka. Mismunandi aldurskröfur gilda um mismunandi flokka.

Á vefsíðu Transportstyrelsen má finna upplýsingar um ökuskírteini og hvaða kröfur þarf að uppfylla til að mega aka bíl í Svíþjóð.

Getur þú tekið bílpróf í Svíþjóð?

Einstaklingur getur aðeins tekið bílpróf þar sem hann er skráður í þjóðskrá. Ef þú vilt taka bílpróf í Svíþjóð þarftu að vera skráð(ur) með lögheimili þar í landi.

Þú þarft að kanna hvaða kröfur gilda fyrir þann flokk sem þú hefur áhuga á og sækja um ökuskírteinisleyfi. Þú getur notað gilt ökuskírteinisleyfi til að stunda æfingaakstur og fara í bílpróf í Svíþjóð. Þetta á bæði við þegar bílpróf er tekið í fyrsta sinn og þegar á að endurnýja eða sækja aftur um ökuréttindi.

Hvaða ökuskírteini eru tekin gild í Svíþjóð?

Ef þú ert með erlent ökuskírteini veitir það þér rétt til að aka bíl í Svíþjóð. Þú þarft alltaf að hafa ökuskírteinið meðferðis við akstur.

Ökuskírteini frá ESB- og EES-löndum

Ef ökuskírteinið þitt er gefið út í ESB-ríki getur þú notað það hvar sem er innan ESB. Áður en þú ferðast skaltu ganga úr skugga um að ökuskírteinið sé enn í gildi. Ef ökuskírteinið rennur út á ferðum þínum erlendis ógildist það um leið og verður ekki viðurkennt í öðrum löndum.

Ef þú ert með ökuskírteini frá ESB- eða EES-landi er það tekið gilt svo lengi sem það er í gildi í útgáfulandi þess og að því gefnu að þú hafir ekki skipt yfir í sænskt ökuskírteini. Ökuskírteinið gildir einnig þótt þú sért með lögheimili í Svíþjóð.

Ökuskírteini sem gefin eru út í Danmörku, Finnlandi, á Íslandi eða í Noregi eru gild í Svíþjóð ef:

  • ökuskírteinið er í gildi í því landi sem það er gefið út í
  • ökuskírteininu hefur ekki verið skipt út fyrir sænskt ökuskírteini
  • viðkomandi hefur ekki fengið sænskt ökuskírteini sem hefur verið tekið af honum eða afturkallað.

Ökuskírteini frá landi utan ESB/EES

Ef ökuskírteini er gefið út í landi utan ESB/EES gildir það í Svíþjóð svo lengi svo lengi sem það er í gildi í útgáfulandinu og að því gefnu að ekki hafi verið skipt yfir í sænskt ökuskírteini.

Ökuskírteinið gildir ekki í Svíþjóð ef þú hefur átt lögheimili í Svíþjóð í meira en ár.

Hvernig er ökuskírteini endurnýjað í Svíþjóð?

Ökuskírteini gilda í takmarkaðan tíma og þau þarf að endurnýja áður en gildistíma lýkur. Sænsk ökuskírteini gilda í tíu ár í senn. Frekari upplýsingar um endurnýjun ökuskírteina í Svíþjóð er að finna á vefsíðu Transportstyrelsen.

Ef þú missir ökuskírteinið eða þarft að endurnýja það getur þú ekki fengið það útgefið í Svíþjóð ef þú hefur flutt úr landi. Ef þú reynir að endurnýja sænska ökuskírteinið í öðru norrænu ríki þegar það er útrunnið þarftu að sækja aftur um ökuréttindi í heimalandinu.

Nánari upplýsingar um endurnýjun ökuskírteina á Norðurlöndum er að finna hjá eftirfarandi yfirvöldum.

Hvenær þarf að skipta erlendu ökuskírteini út fyrir sænskt ökuskírteini?

Hægt er að skipta ökuskírteini frá öðru norrænu ríki út fyrir sænskt ökuskírteini sé ökuskírteinið gilt í Svíþjóð og viðkomandi búsettur í Svíþjóð ótímabundið. Skipta þarf erlendu ökuskírteini út fyrir sænskt ökuskírteini áður en það erlenda rennur út.

Athugaðu að ökuskírteinum sem gefin eru út á Grænlandi er ekki hægt að skipta út fyrir sænsk ökuskírteini.

Ef þú býrð tímabundið í Svíþjóð skaltu ekki skipta yfir í sænskt ökuskírteini heldur halda ökuskírteininu frá heimalandi þínu.

Gildir ökuskírteini í Svíþjóð ef það hefur verið afturkallað í öðru ESB-ríki?

Ef þú hefur misst akstursleyfi í öðru ESB-/EES-ríki getur þú ekki sótt um nýtt ökuskírteini frá öðru ESB-/EES-ríki. Hægt er að sækja um ökuskírteini að loknu akstursbanni.

ESB-/EES-ríki mega ekki viðurkenna ökuskírteini gefin út af öðrum ESB-/EES-ríkjum sem eru takmörkuð, útrunnin eða hafa verið afturkölluð í hinu ríkinu. Þeim ber einnig að neita að gefa út ökuskírteini til einstaklinga með takmarkað, útrunnið eða afturkallað ökuskírteini í öðru ESB-/EES-ríki.

ESB-/EES-ríki getur einnig neitað að gefa út ökuskírteini til einstaklinga með ógilt ökuskírteini í öðru aðildarríki.

Er hægt að nota sænskt ökuskírteini erlendis?

Venjulegt ökuskírteini gildir á öllum Norðurlöndum, í ESB og í Sviss og Liechtenstein.

Ef þú flytur til annars norræns lands og átt sænskt ökuskírteini þarftu að skipta sænska skírteininu út fyrir ökuskírteini sem gefið er út í landinu sem þú býrð í áður en sænska ökuskírteinið rennur út. 

Ef þú dvelur í landi utan ESB eða EES í lengri tíma og ætlar að aka bíl skaltu kanna hvort þú þurfir alþjóðlegt ökuskírteini. Þú getur haft samband við sendiráðið í viðkomandi landi til að fá nánari upplýsingar.

Alþjóðlegt ökuskírteini kemur ekki í staðinn fyrir almenna ökuskírteinið en er sönnun á því að viðkomandi megi aka bíl. Það er því nauðsynlegt að hafa einnig almenna ökuskírteinið meðferðis. Hafðu í huga að þú gætir þurft fleiri en eitt alþjóðlegt ökuskírteini ef þú ætlar að aka í fleiri en einu landi í sömu ferð.

Samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna