Örorkulífeyrir á Grænlandi

Foto: Lägenheter, Sisimiut, Grönland
Photographer
Mats Bjerde
Hér er að finna upplýsingar um örorkulífeyri (førtidspension) á Grænlandi.

Örorkulífeyrir er veittur einstaklingum sem hafa skerta starfsgetu, eru 18 ára eða eldri en þó undir ellilífeyrisaldri og eiga því ekki rétt á ellilífeyri. Skert starfsgeta getur stafað af líkamlegri eða andlegri fötlun eða langvinnum sjúkdómi.

Til að fá örorkulífeyri á Grænlandi þarft þú að:

  • Hafa varanlega skerta starfsgetu, að hluta eða að fullu
  • Vera á aldrinum 18 til 66 ára
  • Hafa haft fasta búsetu á Grænlandi, í Danmörku eða Færeyjum undanfarin 3 ár að lágmarki
  • Hafa fasta búsetu á Grænlandi, öðru norrænu landi eða EES-landi

Að auki þarftu að uppfylla eitt af eftirfarandi þremur skilyrðum:

  • Vera danskur ríkisborgari
  • Falla undir Norðurlandasamninginn um almannatryggingar
  • Hafa haft fasta búsetu á Grænlandi í að minnsta kosti 3 ár áður en þú sækir um örorkulífeyri

Þegar þú hefur sótt um örorkulífeyri þarftu að undirgangast stöðumat og hugsanlega einnig endurmat. Starfsgeta þín er metin og á grundvelli matsins er hægt að úthluta þér örorkulífeyri á hæsta, miðlungs eða lægsta stigi. Því meiri starfsgetu sem þú telst hafa, þeim mun lægri örorkulífeyri áttu rétt á. Ástæðan er að fólk með meiri starfsgetu getur unnið meira.

Yfirvöld hafa umsjón með mati á rétti þínum til örorkulífeyris. Matið fer fram á grundvelli ýmissa athugana sem eiga að skera úr um það hvort starfsgeta þín er varanlega skert. Yfirvöldum er skylt að kanna hvort þú getur endurheimt eitthvað af þinni fyrri starfsgetu.

Hvernig sækir þú um örorkulífeyri frá öðru norrænu ríki ef þú átt heima á Grænlandi?

Ef þú býrð á Grænlandi og sækir um ellilífeyri frá öðru norrænu ríki þarftu að hafa samband við Departementet for Sociale Anliggender (félagsmálaráðuneytið). Þar færðu aðstoð við að sækja um hjá yfirvöldum í því norræna landi eða norrænu löndum þar sem þú vilt sækja um örorkulífeyri.

Ef sótt er um örorkulífeyri frá tveimur löndum

Löggjöf norrænu landanna er mismunandi og því þarft þú að uppfylla mismunandi kröfur til að fá örorkulífeyri frá þeim. Hafðu samband við yfirvöld í því landi eða löndum þar sem þú vilt sækja um.

Er hægt að taka með sér grænlenskan örorkulífeyri til annars lands innan ríkjasambands Danmerkur, Færeyja og Grænlands?

Ef þú þiggur örorkulífeyri og flytur til Danmerkur eða Færeyja getur þú í einhverjum tilfellum tekið örorkulífeyrinn með þér í allt að 12 mánuði eftir flutningana. Að þeim tíma liðnum heyrir tilfelli þitt undir ellilífeyrislög í Danmörku eða Færeyjum.

Máttu vinna meðan þú færð greiddan örorkulífeyri?

Eigir þú rétt á örorkulífeyri á Grænlandi hefur þú möguleika á að vinna meðfram, upp að því marki sem starfsgetumat þitt segir til um. Þér ber skylda til að gera sveitarfélaginu viðvart ef breyting verður á persónulegum högum þínum eða fjárhagsstöðu á einhvern þann hátt sem veldur því að endurmeta þurfi rétt þinn til örorkulífeyris, setja hann í bið eða fella hann niður.

Réttur þinn til örorkulífeyris fellur niður ef þú uppfyllir ekki lengur þau skilyrði sem sett eru.

Hvernig er örorkulífeyrir greiddur við andlát?

Við andlát örorkulífeyrisþega er örorkulífeyrir hins látna greiddur maka viðkomandi, sé maki til staðar, í tvo mánuði frá lokum þess mánaðar sem andlátið átti sér stað.

Hvert er hægt að beina spurningum?

Hafir þú spurningar í tengslum við lagasetningu varðandi örorkulífeyri á Grænlandi skaltu hafa samband við Departementet for Sociale Anliggender (félagsmálaráðuneytið).

Hafir þú spurningar í tengslum við umsókn þína um örorkulífeyri á Grænlandi skaltu hafa samband við búsetusveitarfélag þitt.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna