Þjóðskrá á Íslandi

Þjóðskrá á Íslandi
Eftirfarandi eru upplýsingar um hvenær einstaklingur á rétt á að skrá sig í þjóðskrá og hvernig hann skráir sig.

Reglur um skráningu í þjóðskrá á Íslandi

Fyrir þá sem flytja til Íslands frá öðru norrænu landi gildir norrænn samningur um almannaskráningar milli Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar. Samningurinn kveður á um að aðeins sé hægt að vera skráður til lögheimilis á einum stað á Norðurlöndum. Reglur þess lands sem flutt er til ráða til um það hvernig skráningu er háttað.

Á Íslandi sér Þjóðskrá Íslands um skráningu lögheimila og útgáfu á kennitölum. Norrænir ríkisborgarar sem ætla að búa og starfa á Íslandi skemur en sex mánuði þurfa að öllu jöfnu ekki að flytja lögheimili sitt til landsins. Hafi þeir þörf fyrir kennitölu til dæmis vegna náms eða atvinnu þarf vinnuveitandi, Vinnumálastofnun eða skóli að sækja um kennitölu fyrir viðkomandi.

Þeir sem flytja til Íslands frá einhverju Norðurlandanna og búa og starfa á Íslandi lengur en 6 mánuði, eru skyldugir til að flytja lögheimili sitt til landsins. Það er gert með því að fara annaðhvort til Þjóðskrár Íslands eða á skrifstofu viðkomandi sveitarfélags og tilkynna flutning.

 

Að tilkynna flutning til Íslands frá öðru norrænu ríki

Einstaklingur sem flytur til Íslands frá öðru norrænu ríki, skal tilkynna flutning til Íslands áður en vika er liðin. Það gerir hann persónulega hjá Þjóðskrá Íslands eða skrifstofu viðkomandi sveitafélags. Viðkomandi verður skráður í þjóðskrá frá þeim degi sem gefinn er upp sem flutningsdagur og Þjóðskrá Íslands tilkynnir flutninginn til brottflutningslandsins. Ef viðkomandi tilkynnir flutning til Íslands eftir að vika er liðin frá raunverulegum flutningsdegi, verður hann skráður í Þjóðskrá Íslands frá þeim degi sem tilkynnt er um flutning.

Hvað skal hafa meðferðis

Hafa skal vegabréf eða önnur gild ferðaskilríki meðferðis þegar tilkynnt er um flutning til Þjóðskrár Íslands eða skrifstofu viðkomandi sveitafélags.

Skráning barna í þjóðskrá

Sömu reglur gilda fyrir börn og fullorðna um skráningu í þjóðskrá. Ef flytja á barn erlendis frá til Íslands þá þarf að veita upplýsingar um forsjá barnsins.

Ef barn flyst frá öðru foreldri til hins eða til þriðja aðila og forsjá er sameiginleg þá þarf að liggja fyrir fyrir samningur forsjárforeldra um breytingu á lögheimili barns sem staðfestur er af sýslumanni.  Þetta á einkum við um íslensk börn þar sem í gildi er samningur um forræði og lögheimili barna. Á grundvelli samningsins er lögheimili barns breytt í þjóðskrá. Í þessu felst að ef forsjá er sameiginleg og flytja á barn erlendis frá öðru foreldri til hins þá þarf ávallt að gera samning um lögheimili barns hjá sýslumanni áður en farið er úr landi. Það sama á við þegar barn kemur eitt til Íslands og flytur frá öðru foreldri til hins þá þurfa að liggja fyrir upplýsingar um forsjá barnsins og gera samning um lögheimili barns hjá sýslumanni.

Í tilvikum þar sem erlent barn flytur eitt til Íslands eða með öðru foreldri sínu þarf ávallt að leggja fram gögn um hvernig forsjá barnsins er háttað.  Sé forsjá sameiginleg þá þarf samþykki þess foreldris sem ekki flytur að fylgja með sé það foreldri búsett í landinu sem flutt er frá.

Kennitala

Allir einstaklingar sem skráðir eru í Þjóðskrá fá kennitölu. Einstaklingar sem einu sinni hafa fengið kennitölu, halda henn i ævilangt, jafnvel þó þeir flytji frá Íslandi.  

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Þjóðskrár eða í síma +354 5155300

Hafa samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna