Höskuldur Þórhallsson kjörinn forseti Norðurlandaráðs

30.10.14 | Fréttir
Höskuldur Þórhallsson
Photographer
Magnus Fröderberg/norden.org
Ísland fer með formennsku í Norðurlandaráði á árinu 2015 og mun leggja áherslu á framtíðarsýn Norðurlanda.

Forsetakjör og kynning á formennskuáætlun Íslendinga fóru fram á þingi Norðurlandaráðs í Stokkhólmi. Höskuldur Þórhallsson, Framsóknarflokki, var kjörinn forseti Norðurlandaráðs en mótframbjóðandi hans var Steingrímur J. Sigfússon, Vinstri grænum. Guðbjartur Hannesson var kjörinn varaforseti.

Formennskuáætlun Íslands hefur hlotið yfirskriftina „Framtíð Norðurlanda“ og hefur þrjú áherslusvið, að sögn hins nýkjörna forseta.

„Eitt áherslusviðanna er alþjóðlegt samfélag og annað er velferðarsamfélagið og velferðarsamfélag framtíðar. Síðast en ekki síst munum við endurvekja umræðu um borgaralegt samfélag, málefni sem hefur mikla þýðingu fyrir framtíð barnanna okkar.“

Norðurslóðir mikilvægar í alþjóðlegu samhengi

Land- og hafsvæði Norðurlanda eru að stórum hluta á norðurslóðum. Norðurslóðir skipa æ stærri sess í utanríkismálunum og svæðið verður í brennidepli í formennskuáætlun Íslendinga.

„Mikið er rætt um hvernig standa eigi að þróun á Norðurslóðum. Tækifærin eru mörg, en viðfangsefnin sömuleiðis. Ísland vill kanna möguleika á auknu samstarfi við granna á Vestur-Norðurlöndum.“

Íslenska formennskan vill leggja aukna áherslu á málefni Vestur-Norðurlanda.

„Hingað til hafa Norðurlönd litið mikið til grannsvæða í austri. Ísland vill stuðla að aukinni umfjöllun um málefni Vestur-Norðurlanda á sviðum öryggis- og umhverfismála og verslunar.“

Vilja sporna gegn áhættuþáttum lífsstílssjúkdóma meðal barna

Norræna velferðarlíkanið hefur lengi verið mikilvægt áherslusvið Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar og hyggst Ísland fylgja því eftir. Höskuldur vill þó að áherslan á velferð barna verði aukin.

„Börnin eru okkar mikilvægasta auðlind, sé litið til framtíðarinnar. Því ber okkur að hafa velferð þeirra í fyrirrúmi og sporna gegn áhættuþáttum langvinnra sjúkdóma, svo sem tóbaksreykingum, áfengisneyslu og hreyfingarleysi.“


Horfið á myndskeið með Höskuldi Þórhallssyni (á íslensku)